Viðskipti innlent

Húsaleiga hækkað mun meira en kaupverð íbúða

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hæsta leiguverðið fyrir tveggja herbergja íbúðir er í austurhluta Reykjavíkur og hæsta verðið fyrir þriggja herbergja íbúðir er í vesturhluta borgarinnar, en miðborg Reykjavíkur telst til vesturhlutans samkvæmt Hagsjánni.
Hæsta leiguverðið fyrir tveggja herbergja íbúðir er í austurhluta Reykjavíkur og hæsta verðið fyrir þriggja herbergja íbúðir er í vesturhluta borgarinnar, en miðborg Reykjavíkur telst til vesturhlutans samkvæmt Hagsjánni. vísir/vilhelm
Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hafði í maí síðastliðnum hækkkað um 7,2 prósent frá því í maí í fyrra en á sama tíma hefur verð fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu aðeins hækkað um 2,9 prósent.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans í dag. Þar segir að breytingar á leigu-og kaupverði fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu höfðu fylgst nokkuð náið allt frá árinu 2011 en þá var farið að birta vísitölu leiguverðs.

„Um mitt sumar 2015 mældist töluverð lækkun á húsaleigu þannig að vísitala leiguverðs dróst töluvert aftur úr vísitölu kaupverðs. Upp frá því dró heldur sundur með þróun kaup- og leiguverðs allt þar til í júní í fyrra þegar verulega dró úr hækkunum kaupverðs. Síðan hefur dregið saman með þessum stærðum og leiguverð hækkað töluvert meira en kaupverð íbúða,“ segir í Hagsjánni.

 

Hæsta leiguverðið fyrir tveggja herbergja íbúðir er í austurhluta Reykjavíkur og hæsta verðið fyrir þriggja herbergja íbúðir er í vesturhluta borgarinnar, en miðborg Reykjavíkur telst til vesturhlutans samkvæmt Hagsjánni:

„Leiguverð fyrir 2ja herbergja íbúðir í maí er nær alls staðar töluvert hærra en á 3ja herbergja íbúðum, nema í Kópavogi. Leiguverð 3ja herbergja íbúða er svo líka nær alls staðar hærra en á stærstu íbúðunum. Munur á leiguverði 2ja og 3ja herbergja íbúða var mestur í Breiðholti, um 30%, en er að meðaltali um 8% á öllum svæðum. Munurinn á 3ja herbergja íbúðum og þeim stærri er mestur á Akureyri, um 30%, en er að meðaltali um 6%.

Hæsta leiguverðið fyrir 2ja herbergja íbúðir er í austurhluta Reykjavíkur og hæsta verðið fyrir 3ja herbergja íbúðir er í vesturhluta Reykjavíkur. Miðborg Reykjavíkur telst hér til vesturhlutans. Hér er leiguverðið borið saman milli maímánaða 2017 og 2018. Vísitala leiguverðs hækkaði um 7,2% á milli þessara tímabila.

Mesta breyting á leiguverði á þessum tíma er 26% hækkun 4-5ja herbergja íbúða í vesturhluta Reykjavíkur og þar á eftir koma 3ja herbergja íbúðir í austurhluta Reykjavíkur. Minnstu breytingarnar eru 7% lækkun á stærstu íbúðunum í Garðabæ og Hafnarfirði og um 5% hækkun á 3ja herbergja íbúðum í Breiðholti.

Eins og oft hefur verið undirstrikað í Hagsjám Hagfræðideildar er jafnan um að ræða mikla dreifingu á bak við meðaltöl ýmissa stærða á fasteignamarkaði. Þá eru einnig töluverðar sveiflur á milli mælinga í einstökum mánuðum. Þessar aðstæður eiga ekki síður við um leigumarkaðinn en kaup- og sölumarkaðinn,“ segir í Hagsjá Landsbankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×