Fótbolti

Gylfi: Lifum fyrir þessi stórmót og viljum skemmta fólkinu heima

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu í kvöld. Getty
Gylfi Þór Sigurðsson var upplitsdjarfur í viðtali við Rúv eftir tapið gegn Króatíu á HM í Rússlandi í kvöld. „Það er stutt á milli í þessu,“ sagði Gylfi og brosti.

„En við gáfum allt í þetta. Við vissum að staðan var 1-1 hjá Argentínu og við vissum að Argentína myndi skora í lokin. Við reyndum líka að ná öðru marki hjá okkur og gáfum allt í það. Við vorum rosalega nálægt því en það kostaði okkur líka,“ sagði hann og vísaði til sigurmarks Króata seint í leiknum.

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði mark Íslands úr vítaspyrnu en hann fékk líka víti gegn Nígeríu sem hann nýtti ekki, sem frægt er.

„Nú var það bara að skjóta aðeins lægra. Skora,“ sagði hann spurður um hvað hann hefði hugsað þegar það kom að því að taka vítaspyrnuna.

„Það hefði verið auðvelt að leyfa öðrum að taka þetta víti en ég tók þessa ákvörðun. Það var aðeins meira stress í mér áður en sem betur fer hreyfði markvörðurinn sig og hann fór inn.“

Gylfi Þór segir að það hafi verið mikið afrek að komast á HM og að baráttan í riðlinum hafi verið afar hörð. „Við erum með tveimur liðum sem vilja vinna keppnina og þá er Nígería mjög erfitt lið líka. Nú þurfum við bara að taka okkur saman í andlitinu og komast á næsta stórmót,“ sagði Gylfi enn fremur.

„Við erum allir sammála um að þetta sé eitthvað það allra skemmtilegasta sem við höfum gert. Við lifum fyrir þetta. Það er frábært að geta skemmt fólkinu heima og að fá að upplifa þetta. Nú stefnum við á næsta Evrópumeistaramót.“


Tengdar fréttir

Einkunnir Íslands: Emil bestur í kvöld

Venju samkvæmt gefur Vísir leikmönnum íslenska landsliðsins einkunn fyrir frammistöðu sína á HM. Það voru margir frábærir á vellinum í kvöld.

Heimir: Sóknarlega sjaldan gert betur

Ísland er úr leik á HM eftir 2-1 tap gegn Króatíu í lokaleiknum í riðlakeppni HM. Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, gengur stoltur frá mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×