Tónlist

Childish Gambino sakaður um lagastuld

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Atriðið með gospelkórnum er talið endurspegla árás í kirkju í Charleston árið 2015.
Atriðið með gospelkórnum er talið endurspegla árás í kirkju í Charleston árið 2015. Youtube/Donald Glover
Donald Glover, sem gefur út tónlist undir nafninu Childish Gambino, hefur verið sakaður um að hafa stolið laginu This Is America. Á Reddit fóru af stað umræður um helgina þar sem því var haldið fram að Gambino hefði fengið aðeins of mikinn innblástur frá laginu American Pharaoh. Rapparinn Jase Harley gaf lagið út í mars árið 2016.

Fam Rothstein sem vann að laginu og myndbandinu við This is America, skrifaði á Twitter að þetta væri algjört kjaftæði. Lag Gambino væri þriggja ára gamalt og hann hefði upptökur og gögn til þess að sanna það. Færslunni var þó eytt.

Myndbandið við lagið This Is America hefur verið spilað meira en 300 milljón sinnum á Youtube og kom lagið af stað mikilvægri umræðu. Lögin tvö má heyra hér að neðan til samanburðar.

Margir höfðu skrifað athugasemdir um málið á Instagram síðu rapparans Harley. Hann var meðal annars spurður um sína skoðun á því hvort lagið væri stolið frá honum. Svarið hans var:

„Mér fannst alltaf eins og lagið mitt væri innblásturinn að því, alveg frá fyrstu hlustun.“

Harley skrifaði svo Instagram færslu í gær þar sem hann sagðist stoltur að því að fólk teldi lagið hans vera innblásturinn á bak við svona mikilvægt meistaraverk.

„Ég er þakklátur fyrir ástina og stuðninginn en ekki láta þessar deilur þynna út boðskapinn sem ég og Childish Gambino erum að reyna að koma á framfæri. Við erum að tala um óréttlætið sem að við höfum orðið fyrir og hann hefur hjálpað til við að útvega vettvang þar sem raddir okkar allra heyrast.“

Hann bað aðdáendur sína að einbeita sér frekar að jafnrétti og breytingum í samfélögum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×