Innlent

Opnuðu nýja lágvarmavirkjun á Flúðum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ráðherrarnir við opnun virkjunarinnar í dag.
Ráðherrarnir við opnun virkjunarinnar í dag. utanríkisráðuneytið
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, og Ann Linde, utanríkis-og Evrópumálaráðherra Svíþjóðar, opnuðu í dag nýja lágvarmavirkjun á Flúðum. Á næstu þremur árum er stefnt að því að opna tuttugu slíkar virkjanir.

Lágvarmavirkjunin sem var opnuð í dag er í landi Kópsvatns í Hrunamannahreppi og byggist hún á nýrri sænskri tækni. Verkefnið er samstarf Varmaorku og sænska fyrirtækisins Climeon sem framleiðir búnað til virkjunar lághitasvæða sem áður var ekki hægt að nýta til orkuframleiðslu.

Auk þess að opna virkjunina funduðu ráðherrarnir í dag en Linde er stödd hér á landi í vinnuheimsókn að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.

„Tengsl Íslands og Svíþjóðar eru sterk og norrænu gildin eru grundvöllur náins samstarfs á alþjóðavettvangi,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fund þeirra í dag.

„Við erum sammála um að tækifæri til aukinna viðskipta milli ríkjanna séu mikil og er jarðvarmastöðin á Flúðum dæmi um það. Hún tvinnar saman sænska tækni og íslenska orku og opnar mikla möguleika á frekari nýtingu á lághitasvæðum.“

Þá ræddu ráðherrarnir einnig stöðu alþjóðaviðskipta, útgöngu Breta úr ESB, Evrópusamstarf og samstarf Norðurlandanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×