Bandarískur hæstaréttardómari sest í helgan stein

Búast má við hörðum átökum í Washington-borg um skipan í Hæstarétt Bandaríkjanna eftir að Anthony Kennedy tilkynnti um að hann ætlaði að láta af störfum sem dómari við réttinn í dag. Donald Trump forseta gefst nú tækifæri til að draga réttinn, sem er afar áhrifamikill í bandarískri stjórnskipan, lengra til hægri.
Kennedy, sem er 81 árs gamall, hefur í reynd verið oddadómari í Hæstarétti undanfarin ár. Níu dómarar skipa Hæstarétt, fjórir þeirra eru taldir íhaldssamir og fjórir frjálslyndir. Kennedy hefur þannig oft ráðið úrslitum í stórum og hápólitískum málum sem hafa komið fyrir dóminn. Það var þannig atkvæði hans sem reið baggamuninn þegar Hæstiréttur félst á að samkynhneigðir hefðu rétt á að ganga í hjónaband.
Washington Post segir að þetta sé í fyrsta skipti í aldarfjórðung sem skipan nýs hæstarétardómara gæti breytt valdahlutföllum í Hæstarétti verulega. Trump forseti færi nú tækifæri til að skipa fimmta dómaranna sem gæfi íhaldsmönnum meirihluta í réttinum.
Trump segir að hann ætli þegar í stað að hefja leit að nýjum hæstaréttardómara. Hann muni koma af lista 25 kandídata sem áður hefur verið tekinn saman.
Hæstiréttur líklegur til að sveiflast til hægri
Trump hefur þegar skipað einn íhaldssaman dómara í Hæstarétt. Neil Gorsuch tók við af íhaldsmanninum Antonin Scalia sem lést þegar Barack Obama var enn forseti í febrúar árið 2016. Trump hefur ítrekað hampað skipan Gorsuch sem einum sínum helsta sigri í embætti.Leiðtogar repúblikana á Bandaríkjaþingi neituðu hins vegar að taka dómaratilnefningu Obama til umfjöllunar í heilt ár. Héldu þeir því fram að gefa ætti bandarísku þjóðinni færi á að segja hug sinn til tilnefningarinnar í forsetakosningunum árið 2016.
Þingkosningar eru í Bandaríkjunum í nóvember. Reikna má með hörðum átökum á milli demókrata og repúblikana á þingi um skipan eftirmanns Kennedy. Repúblikanar eru með meirihluta í báðum deildum þingsins.
Skoðanakannanir undanfarinna missera hafa bent til þess að demókratar gætu unnið verulega á í kosningunum í haust og mögulega náð meirihluta í annarri hvorri deildinni. Líklegt er því að Trump og repúblikanar muni reyna að tilnefna og staðfesta nýjan dómara í embætti með hraði fyrir kosningar.
Kennedy tók við embætti hæstaréttardómara árið 1988 en hann var skipaður af Ronald Reagan, þáverandi forseta.
Tengdar fréttir

Trump fagnar sigri eftir að hæstiréttur staðfesti ferðabann hans
Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur staðfest að umdeilt ferðabann Donalds Trumps forseta standist stjórnarskrá.

Keppast við að skipa dómara fyrir kosningar
Repúblikanar keppast nú við að skipa íhaldssama menn í ævistörf alríkisdómara í Bandaríkjunum ef þeir skyldu missa tökin í öldungadeildinni í nóvember.

„Þetta mun hafa afleiðingar 40 ár fram í tímann“
Á sínu fyrsta kjörtímabili gæti Trump tilnefnt allt að 30 prósent allra alríkisdómara í Bandaríkjunum.