Innlent

Yfirvinnubann ljósmæðra er nú í kortunum

SAR skrifar
Frá fundi samninganefndanna í gær.
Frá fundi samninganefndanna í gær. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
Engin niðurstaða varð á fundi samninganefnda Ljósmæðrafélags Íslands og ríkisins hjá Ríkissáttasemjara í gær. „Þetta var stuttur fundur og innihaldsrýr. Það voru svolítið skilaboð samninganefndar ríkisins að við værum komin á byrjunarreit,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar Ljósmæðrafélagsins.

Katrín segir að ekkert nýtt hafi komið frá samninganefnd ríkisins. „Það hefur verið boðaður nýr fundur á fimmtudaginn í næstu viku.“

Katrín segir ekki bjart yfir í augnablikinu. „Ríkisstjórnin þarf að fara að axla ábyrgð á þessari graf­alvarlegu stöðu.“

Sjá einnig: Upp­sagnir ljós­mæðra sem taka gildi á sunnu­dag hafa víð­tæk á­hrif á fæðinga­þjónustu Land­spítalans



Atkvæðagreiðsla um yfirvinnubann ljósmæðra stendur nú yfir og verður niðurstaðan ljós á sunnudaginn. Katrín segist reikna með því að það verði samþykkt enda hafi um 90 prósent verið því fylgjandi í óformlegri könnun sem Ljósmæðrafélagið gerði. „Það er því mjög líklegt að yfirvinnubann verði boðað á mánudaginn sem tæki þá gildi um miðjan júlí.

Landspítalinn hefur sett upp sérstaka aðgerðaáætlun til að bregðast við uppsögnum tólf ljósmæðra sem taka gildi 1. júlí næstkomandi.

Í yfirlýsingu frá Landspítalanum segir að ljóst sé að mikil truflun verði á starfsemi fæðingarþjónustu. Aukin samvinna milli deilda spítalans hefur verið undirbúin og aðrar heilbrigðisstofnanir og heilsugæslan hafa samþykkt að veita aukna þjónustu.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×