Innlent

Furðar sig á frestun frumvarps um lækkun veiðigjalda

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Forsætisráðherra væntir þess að frumvarp um veiðigjöld komi fram næsta haust. Framkvæmdastjóri samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir sæta furðu að Alþingi skyldi ekki samþykkja frumvarp um lækkun veiðigjalda fyrir sumarhlé.

Frumvarpi meirihluta atvinnuveganefndar um lækkun veiðigjalda var frestað til næsta hausts á Alþingi á föstudag en samkvæmt því átti að færa viðmið gjaldsins, það er að segja aflaverðmætið, nær þeim tíma sem gjöldin væru lögð á. En í dag nær viðmiðið allt að þrjú ár aftur í tímann. Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi er undrandi á frestuninni.

„Það sætir auðvitað furðu að þegar á að færa gjaldið nær í tíma að þingið geti þá ekki komið sér saman um slíka réttarbót,“ segir Heiðrún Lind.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.visir/stefán
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók þetta sjónarmið í Víglínunni í gær.

„Ástæða þess að innheimta veiðigjalda hefur miðast við gamlar tölur er að nýrri tölur hafa ekki verið tiltækar. Nú eru þær að verða tiltækar og þá þurfum við að taka afstöðu til hvort við viljum ekki miða við nýjustu gögn. Hvenær á slík breyting að fara fram og hvenær er réttur tími? Ég veit ekki hvort sá tími kemur,“ segir Katrín.

Heiðrún Lind segir að frestunin hafi slæm áhrif á stórar og smáar útgerðir.

„Þetta hefur og mun hafa harkaleg áhrif á rekstur þessara fyrirtækja sem þurfa að hagræða vegna þessa og það er ekki alltaf svigrúm til þess,“ segir hún.

Forsætisráðherra býst við að sjávarútvegsráðherra komi fram með frumvarp um veiðileyfagjöldin í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×