Erlent

Andar köldu milli Bandaríkjanna og Kanada eftir G7 ráðstefnuna

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Stjórnarráð Þýskalands birti þessa mynd af fundinum en hún þykir ramma stemninguna ágætlega inn.
Stjórnarráð Þýskalands birti þessa mynd af fundinum en hún þykir ramma stemninguna ágætlega inn. Vísir/Getty

Það kastaðist í kekki milli leiðtoga Bandaríkjanna og Kanada að loknum fundi G7 ríkjanna í Kanada um helgina. Einn viðskiptaráðgjafa Bandaríkjaforseta lét hafa eftir sér að það væri „sérstakur staður í helvíti“ fyrir Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.

Þetta var 44. fundur G7 ríkjanna en hópurinn samanstendur af Kanada, Bandaríkjunum, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Japan og Bretlandi. Rússar voru meðlimir hópsins til ársins 2014 en var úthýst í kjölfar framgöngu þeirra á Krímskaganum. ESB hefur einnig átt seturétt á fundum hópsins.

Fundurinn nú fór fram 8.-9. júní en hann hefur verið kallaður G6+1 vegna afstöðu Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna. Forsetinn var einangraður á fundinum og endaði á því að yfirgefa hann á undan leiðtogum annarra ríkja. Neitaði forsetinn meðal annars að rita undir sameiginlega yfirlýsingu ríkjanna um að þau myndu vinna í sameiningu að því að draga úr viðskiptahindrunum og verndarstefnu eigin framleiðslu í formi tolla.

Sem frægt er hafa Bandaríkin boðað hækkaða tolla á innflutt ál og stál. Ríki heimsins hafa svarað í sömu mynt og er deilan harðvítug. Hækkunin af hálfu Bandaríkjanna tók gildi þann 1. júní síðastliðinn og hafa ríki heimsins boðað gagnaðgerðir sem myndu taka gildi um næstu mánaðamót.

Auðmjúkur og mildur

„Ég tjáði forsetanum að við myndum svara hækkuninni með gagn­aðgerðum þann 1. júlí. Hann tjáði mér á móti að hann teldi það mistök. Ég er sammála því að það er ekki eitthvað sem við viljum gera. Við viljum ekki skaða bandaríska verkamenn eða viðskiptasambandið milli Kanada og Bandaríkjanna. En ólögmætum hækkunum stjórnar Trumps verður að svara,“ sagði Trudeau á blaðamannafundi.

Venju samkvæmt stökk Trump á Twitter til svara. Sagði hann að Trudeau­ hefði verið „auðmjúkur og mildur“ á fundi þeirra. Yfirlýsing hans í kjölfar ráðstefnunnar hafi hins vegar verið „óheiðarleg og aum“. Tollahækkanir Bandaríkjanna væru andsvar þeirra við 270 prósenta tolli sem Kanada hefur lagt á innfluttar mjólkurafurðir. Fulltrúar stjórnar Trudeau sögðu á móti að ekkert hefði verið í yfirlýsingu hans sem ekki kom fram á fundi hans með forsetanum.

„[Trudeau] stakk okkur í bakið,“ sagði Larry Kudlow, formaður bandaríska þjóðhagsráðsins, um yfirlýsinguna. Peter Navarro, einn efnahagsráðgjafa Trumps, gekk lengra og fullyrti að það væri „sérstakur staður í helvíti“ fyrir menn sem gengju á bak orða sinna með þessum hætti. Tók hann undir orð forsetans um að Trudeau væri „óheiðarlegur og aumur“.

Bæði Þýskaland og Frakkland hafa lýst yfir undrun sinni á málinu og fordæmt framgöngu Bandaríkjanna.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.