Erlent

De Niro bölvaði Trump á Tony-verðlaunahátíðinni

Kjartan Kjartansson skrifar
De Niro fékk standandi lófaklapp hjá hátíðargestum í gærkvöldi.
De Niro fékk standandi lófaklapp hjá hátíðargestum í gærkvöldi. Vísir/Getty
Bandaríski leikarinn Robert de Niro formælti Donald Trump Bandaríkjaforseta á sviði þegar Tony-verðlaunin voru afhent í gærkvöldi. De Niro fékk standandi lófaklapp en sjónvarpsstöðvar ritskoðuðu munnsöfnuð leikarans.

„Ég vil bara segja eitt. Svei Trump [e. Fuck Trump]. Þetta er ekki lengur niður með Trump. Þetta er svei Trump,“ sagði de Niro þegar hann kynnti tónlistaratriði Bruce Springsteen á Tony-leiklistarverðlaununum sem voru afhent í New York í gærkvöldi.

CBS-sjónvarpsstöðin sem sendi verðlaunahátíðina út földu blótsyrði leikarans með hljóðmerki, að sögn AP-fréttastofunnar.

De Niro var ekki sá eini sem lét Bandaríkjaforseta heyra það á hátíðinni í gær. Leikskáldið Tony Kushner sagðist taka undir orð leikarans þegar fréttamenn báru þau undir hann síðar um kvöldið. Kallaði Kushner það „Hitlersmistök“ að Trump væri forseti og að „nánast geðsjúkur sjálfsdýrkandi væri í Hvíta húsinu“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×