Sport

Irma Norðurlandameistari í sjöþraut

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Irma (t.v.) á verðlaunapalli í vetur.
Irma (t.v.) á verðlaunapalli í vetur. mynd/frí
Irma Gunnarsdóttir er Norðurlandameistari U23 í sjöþraut en hún vann með nokkrum yfirburðum á Norðurlandamótinu í fjölþrautum um helgina.

Irma, sem er fædd árið 1998 og keppir fyrir Breiðablik, náði 5403 stigum úr greinunum sjö en sú sem hneppti silfrið skoraði 5182 stig. Árangurinn er sá besti á ferlinum hjá Irmu miðað við skráningu Evrópska frjálsíþróttasambandsins þar sem fyrir átti hún best 5127 stig frá því fyrir ári síðan.

Flest stig fékk Irma fyrir spretthlaupin, hún fékk 858 stig fyrir að hlaupa 100m grindahlaup á 14,88 sekúndum og 872 stig fyrir að fara 200m spretthlaup á 25,16 sekúndum.

Benjamín Jóhann Johnsen náði einnig frábærum árangri á mótinu en hann vann silfurverðlaun í flokki 20-22 ára í tugþraut. Benjamín fékk 6443 stig og var nokkuð langt á eftir sigurvegaranum sem hlaut 7034 stig. Þetta var fyrsta landsliðsverkefnið sem Benjamín Jóhann tekur þátt í.

Þeir Guðmundur Karl Úlfarsson og Ari Sigþór Eiríksson kepptu einnig í tugþraut í sama flokki og bættu þeir sín persónulegu met, Guðmundur Karl náði 6281 stigi og Ari Sigþór 6086.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×