Enski boltinn

Stoke City keypti einn af mótherjum Íslands á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Oghenekaro Etebo, númer 8, með félögum sínum í nígeríska landsliðinu.
Oghenekaro Etebo, númer 8, með félögum sínum í nígeríska landsliðinu. Vísir/Getty
Nígeríumaðurinn Oghenekaro Etebo spilar í Englandi á næsta tímabili en Stoke City keypti nígeríska landsliðsmanninn í dag.

Stoke City féll úr ensku úrvalsdeildinni í vor og spilar í b-deildinni næsta vetur.

Oghenekaro Etebo er 23 manna hópi Nígeríu á HM í fótbolta í Rússlandi og er því einn af mótherjum íslenska landsliðsins á mótinu. Ísland mætir Nígeríu í sínum öðrum leik sem fer fram 22. júní næstkomandi.

Stoke borgar portúgalska félaginu Feirense 6,35 milljónir punda fyrir þennan 22 ára miðjumann.

Oghenekaro Etebo hefur skorað eitt mark i fjórtán landsleikjum og kom það mark á móti Egyptalandi árið 2016.







Oghenekaro Etebo var á láni hjá spænska félaginu Las Palmas á nýlokinni leiktíð en hann fór til spænska liðsins í janúar.  

Hans besta staða er framliggjandi miðjumaður en hann getur líka spilað aftar á miðjunni sem og í bakverði.







Gary Rowett, knattspyrnustjóri Stoke, er ánægður með nýja leikmanninn.

„Etebo er mjög hreyfanlegur og orkumikill leikmaður sem er á frábærum aldri. Hann hefur spilað í efstu deild í Portúgal og á Spáni og svo er hann auðvitað á leiðinni á HM með Nígeríu sem verður stórkostleg lífsreynsla fyrir hann,“ sagði Gary Rowett.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×