Fótbolti

Selma Sól: Mjög gaman að fá traustið og tækifæri

Ástrós Ýr Eggertsdóttir á Laugardalsvelli skrifar
Selma Sól fagnar marki með Sif og Fanndísi.
Selma Sól fagnar marki með Sif og Fanndísi. vísir/andri marinó
Selma Sól Magnúsdóttir kom inn í byrjunarlið Íslands í dag í fjarveru fyrirliðans Söru Bjarkar Gunnarsdóttur í leiknum gegn Slóveníu í undankeppni HM 2019. Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, sýndi henni mikið traust en Selma átti aðeins 5 landsleiki að baki fyrir leikinn.

„Já, ég fékk traustið í dag og það er bara mjög gaman að fá traustið og tækifæri,“ sagði nýgræðingurinn eftir leikinn í kvöld. Freyr hafði orð á því fyrir leikinn að Selma hefði alla burði til þess að geta orðið framtíðarfyrirliði í landsliðinu.

Selma þakkaði traustið í dag og spilaði mjög vel inni á miðjunni. Hvernig leið henni inni á vellinum?

„Mjög vel. Stelpurnar hjálpuðu mér mjög mikið og það var góður talandi í liðinu og þær hjálpuðu mér að koma mér í gang og svona.“

Miðvörðurinn Glódís Perla Viggósdóttir skoraði bæði mörk leiksins sem fór 2-0 fyrir Íslandi og kom seinna markið upp úr hornspyrnu Selmu Sólar.

Ísland er á toppi riðilsins eftir sigurinn með einu stigi meira en Þjóðverjar. Liðin mætast á Laugardalsvelli í september.

„Það er mikill spenningur fyrir næsta verkefni. Það þurfti mikla þolinmæði í dag og við vissum það, þetta tók smá tíma að skora fyrsta markið en það gekk upp í dag og við erum mjög sáttar,“ sagði Selma Sól Magnúsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×