Skoðun

Efndir og árangur um forvarnir gegn krabbameinum

Halla Þorvaldsdóttir skrifar

Krabbamein varðar okkur öll. Þriðjungur Íslendinga greinist með krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni og nýleg könnun Krabbameinsfélags Íslands sýnir að 80% þjóðarinnar eiga nákominn ættingja eða vin sem greinst hefur með krabbamein.

Krabbameinsfélagið er málsvari þeirra sem greinast með krabbamein og stendur vaktina í þágu þeirra. Í aðdraganda nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga sendu mörg aðildarfélög félagsins áskorun á framboð í sínum sveitarfélögum um að vinna að því að skapa nærsamfélag þar sem áhersla er lögð á lýðheilsumál og þætti sem geta orðið til þess að fyrirbyggja krabbamein. Svör bárust frá 36 framboðum í 10 sveitarfélögum.

Rannsóknir sýna að hægt er að koma í veg fyrir fjölda krabbameina, fyrst og fremst með heilbrigðum lífsháttum. Forvarnir eru því einn mikilvægasti þátturinn í því að sporna gegn sjúkdómum á borð við krabbamein og þar bera stjórnvöld ábyrgð. Krabbameinsfélagið þrýstir reglulega á yfirvöld og minnir á þessa ábyrgð. Almenningur getur einnig þrýst á stjórnvöld með því að skrifa undir áskorun félagsins til stjórnvalda.

Til að árangur náist þarf samvinnu margra. Sem dæmi um góða samvinnu er hversu vel hefur tekist að draga úr reykingum hérlendis, árangur sem vakið hefur athygli á heimsvísu. En betur má ef duga skal. Krabbameinsfélag Íslands vill vinna að því að auka þekkingu almennings og ráðamanna enn frekar um hvað hægt er að gera til að draga úr líkum á því að fá krabbamein.

Um leið og við þökkum þeim framboðum sem tóku áskoruninni hlökkum við til að fylgjast með efndum og árangri. Félagið hlakkar einnig til frekara samstarfs um fyrir­byggjandi aðgerðir í framtíðinni.

Upplýsingar um svör frá framboðunum má sjá á heimasíðu Krabbameinsfélags Íslands krabb.?is og þar er einnig hægt að skrifa undir áskorun til stjórnvalda.

Höfundur er framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×