Innlent

Dagur áfram borgarstjóri í Reykjavík

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Dagur segir að þrátt fyrir að ákveðnir fulltrúar veljist til forystu þá sé markmiðið að vinna sem ein heild.
Dagur segir að þrátt fyrir að ákveðnir fulltrúar veljist til forystu þá sé markmiðið að vinna sem ein heild. visir/jói k

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, verður áfram borgarstjóri í  Reykjavík. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem nýr meirihluti boðaði sem fór fram í „Lautinni“ við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Oddvitar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri Grænna skrifuðu þar undir samning um meirihlutasamstarf flokkanna. Á fundinum voru helstu áherslumál kynnt sem og verkaskipting flokkanna.

Dagur segir að þrátt fyrir að ákveðnir fulltrúar veljist til forystu þá sé markmiðið að vinna saman sem ein heild. Heiða Björg Hilmisdóttir fer með formennsku í velferðarráði og Skúli Helgason er formaður skóla-og frístundaráðs.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, er formaður Borgarráðs og Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, verður forseti borgarstjórnar síðustu þrjú ár kjörtímabilsins. Viðreisn mun gegna varaformennsku í íþrótta-og menningarráði, skipulagsráði og skóla-og frístundaráði. Pawel Bartoszek fer með formennsku í menningar-og íþróttaráði fyrsta ár kjörtímabilsins en Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar tekur síðan við.

Hér má sjá upptöku af blaðamannafundinum í Lautinni sem var í beinni útsendingu á Vísi.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík, verður forseti borgarstjórnar fyrsta ár kjörtímabilsins en hún fer einnig fyrir mannréttinda-og lýðræðisráði. Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, fer fyrir samgöngu-og skipulagsráði.

Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavík, mun gegna formennsku í nýstofnuðu ráði umhverfis-og heilbrigðismála en hún segir að borgarbúar geti reitt sig á það að grænu málin verði í öndvegi í þessum nýja meirihluta. Líf er einnig varaformaður borgarráðs.

Líf Magneudóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Dagur B. Eggertsson eru oddvitar flokkanna sem hafa myndað nýjan meirihluta í Reykjavíkurborg. Vísir/ Jói K

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.