Handbolti

Þórir og norsku stelpurnar fengu fínan riðil á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson.
Þórir Hergeirsson. Vísir/Getty
Nú er ljóst hvernig riðlarnir líta út á EM kvenna í handbolta sem fer fram í Frakklandi í desember. Þórir Hergeirsson og stelpurnar hans geta verið nokkuð kát með útkomuna.

Norska landsliðið lenti í riðli með Þýskalandi, Tékklandi og Rúmeníu en liðið mun spila leiki sína í Brest. Tékknesku stelpurnar voru í riðli með þeim íslenskum í undankeppninni.

Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson þjálfar norska kvennalandsliðið eins og undanfarin ár og undir hans stjórn varð norska liðið Evrópumeistari árið 2016. Þórir gerði norsku stelpurnar þá að Evrópumeisturum í þriðja sinn.

Danska landsliðið, sem vann undanriðil Íslands, lenti í riðli með Svíþjóð, Póllandi og Serbíu.

Heimakonur frá Frakklandi verða í riðli með Rússlandi, Slóveníu og Svartfjallalandi.

Í síðasta riðlinum eru síðan Ungverjaland, Holland, Króatía og Spánn. Norska liðið mun lenda í millriðli með liðum úr þeim riðli.

Evrópukeppnin fer fram frá 30. nóvember til 16. desember.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×