Handbolti

Rússarnir brunuðu inn á HM í handbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dmitry Zhitnikov er öflugur leikmaður.
Dmitry Zhitnikov er öflugur leikmaður. Vísir/Getty

Rússland verður með á HM karla í handbolta í Þýskalandi og Danmörku í janúar 2019 eftir átta marka sigur í seinni umspilsleiknum sínum á móti Tékkum.

Tékkar unnu fyrri leikinn 27-26 á heimavelli sínum fyrir fjórum dögum eftir að hafa unnið upp fimm marka forskot Rússa í seinni hálfleiknum.

Í seinni leiknum í Perm í dag þá gaf rússneski björninn þeim engin grið. Rússar unnu leikinn 29-21 eftir að hafa verið 14-11 yfir í hálfleik.

Rússneska liðið vann því umspilið samanlagt 55-48 og er fyrsta landsliðið til að komast upp úr því. Íslenska landsliðið vonast til að fylgja í kjölfarið annað kvöld.

Dmitry Zhitnikov, liðsfélagi íslenska landsliðsmannsins Stefáns Rafns Sigurmannssonar hjá Pick Szeged, átti stórleik og skoraði átta mörk fyrir Rússa í leiknum.

Reynsluboltinn Sergei Gorbok sem spilaði líka með Pick Szeged í vetur var síðan næstmarkahæstur með fimm mörk. Gorbok spilar með RK Vardar á næsta tímabili.

Rússar eru því komnir inn á HM sem verður fyrsta stórmót þeirra í tvö ár því þeim mistókst að tryggja sér sæti á EM í Króatíu sem fram fór í janúar síðastliðnum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.