Viðskipti innlent

Heilbrigt að fleiri komi að borðinu

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins
Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins
Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, segist ekki hafa komið auga á þau vandamál sem eru í nýrri skýrslu nefndar um ramma peningastefnunnar sögð felast í samstarfi eftirlitsins og Seðlabanka Íslands á sviði þjóðhagsvarúðar. Hann segir það ekki endilega til bóta að aðeins ein stofnun komi að því að greina kerfisáhættu á fjármálamörkuðum.

„Vissulega koma stundum fram mismunandi skoðanir hjá mismunandi sérfræðingum, hvort sem þeir starfa hjá Fjármálaeftirlitinu eða mismunandi deildum innan Seðlabankans, en það er að mörgu leyti heilbrigt. Fólk í ólíkum hlutverkum horfir ólíkt á hlutina,“ segir hann í samtali við Markaðinn.

Nefnd um ramma peningastefnunnar, sem skilaði niðurstöðum sínum í liðinni viku, lagði meðal annars til að Seðlabanki Íslands skyldi einn bera ábyrgð á eftirliti með þjóðhagsvarúð (e. macro­prudential) og eindarvarúð (e. microprudential) og hafa auk þess yfirumsjón með greiningu, ákvörðun og beitingu allra þjóðhagsvarúðartækja. Ábyrgðin myndi þannig færast frá Fjármálaeftirlitinu og til Seðlabankans. Eftir sem áður myndi Fjármálaeftirlitið sinna hefðbundnu eftirlitshlutverki á fjármálamarkaði.

Sjá einnig: Veik rök fyrir innflæðishöftum

Fram kom í máli Ásgeirs Jónssonar, dósents í hagfræði við Háskóla Íslands og formanns nefndarinnar, á blaðamannafundi í kjölfar útgáfu skýrslu nefndarinnar að með því að sameina öll varúðartæki á einn stað yrði ferlið frá greiningu til ákvörðunar skilvirkara. Greiningarvinnan yrði jafnframt öflugri og umfangsmeiri með sérfræðinga og upplýsingar á sama staðnum.

Tillaga nefndarinnar hefur endurómað í áliti nokkurra sérfræðinga, innlendra sem erlendra, sem hafa fjallað um íslenska fjármálamarkaðinn á undanförnum árum. Þannig hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kallað eftir því að aðkoma tveggja stjórnvalda að eftirliti með bönkum verði endurmetin, ekki síst vegna samræmingar­vanda sem kunni að koma upp. „Ein leið til hagræðingar gæti verið að sameina regluverk og eftirlit með bönkum innan Seðlabankans en að Fjármálaeftirlitið annist eftirlit með öðrum fjármálastofnunum og mörkuðum ásamt neytendavernd,“ sagði í yfirlýsingu sendinefndar sjóðsins í apríl 2016.

Þyrfti að skoða málið betur

Jón Þór segir ekki ljóst af skýrslu nefndarinnar hvort nefndin vilji að peningastefnan verði fyllilega sjálfstæð gagnvart fjármálastöðugleika eða ekki. Annars vegar leggi nefndin til að ábyrgð á fjármálastöðugleika og peningastefnu verði á einni hendi Seðlabankans en hins vegar sé lagt til að skipaðar verði tvær nefndir þar sem fjármálastöðugleikanefnd geti við ákveðnar kringumstæður verið peningastefnunefndinni æðri. „Maður áttar sig ekki alveg á því af hverju það sé meginatriði að báðar nefndirnar verði innan Seðlabankans.

Í okkar huga er ekki aðalatriði málsins hvað stofnunin heitir sem sinnir verkefnunum,“ nefnir hann. Fremur eigi að huga að því hvernig verkefnum er skipt, svo sem hvaða verkefni eigi að vinna í sameiningu og hvaða verkefni eigi að vinna sjálfstætt.





Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri og Már Guðmundsson seðlabankastjóri.Vísir/vilhelm
Jón Þór segist sakna ítarlegri umfjöllunar í skýrslunni um reynsluna af núverandi fyrirkomulagi kerfisáhættunefndar og fjármálastöðugleikaráðs. Eins sé lítið fjallað um meginverkefni Fjármálaeftirlitsins, eindarvarúð. „Eindarvarúðin er, eins og kerfið er nú byggt upp, mun umfangsmeiri starfsemi í mannafla talið en þjóðhagsvarúðin. Það þyrfti að skoða núverandi fyrirkomulag með mun nákvæmari hætti áður en ákvarðanir eins og þær að færa allt varúðareftirlit yfir til Seðlabankans verða teknar,“ nefnir hann og bætir við:

„Ég held að nefndin hafi ekki fullkomna innsýn í það hvaða þættir í starfsemi Fjármálaeftirlitsins hún leggur til að verði færðir yfir til Seðlabankans, enda fjallar skýrsla nefndarinnar á engan hátt um fjármálaeftirlit.“



Erfitt að sjá ávinninginn

Í skýrslu Kristin Forbes, prófessors við MIT-háskóla og eins ráðgjafa nefndarinnar, var sú skoðun viðruð að að betra væri að greining á hugsanlegri beitingu þjóðhagsvarúðartækja væri samhæfðari en nú er. Jón Þór segir það ekki endilega til bóta að aðeins ein stofnun komi að greiningarvinnunni.

Hann hafi aukinheldur ekki komið auga á þann vanda sem er sagður felast í samstarfi Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans.

Hann bendir á að kerfisáhætta sé tvíþætt fyrirbæri. „Annars vegar er hún sú áhætta sem fjármálafyrirtækjum getur stafað af óhóflegum sveiflum eða áföllum í hagkerfinu og hins vegar er hún sú áhætta sem hagkerfinu getur stafað af áföllum í rekstri einstakra kerfislægra mikilvægra fjármálafyrirtækja. Kerfis­áhættan snýr því að bæði flæði úr „macro“ í „micro“ og úr „micro“ í „macro“. Þetta er gagnvirkt.

Ég held því að það sé að mörgu leyti heilbrigt að fleiri en ein stofnun, með ólíkum sérfræðingum með ólíka sýn, komi að borðinu.“

Jón Þór segir að ef hugmyndir nefndarinnar verði að veruleika hafi það ávallt verið afstaða Fjármálaeftirlitsins að mest sé um vert að tryggja samlegðaráhrif í eftirliti með bæði bönkum og öðrum mikilvægum aðilum á fjármálamarkaði, ekki síst lífeyrissjóðum. „Það er erfitt að sjá ávinninginn af því að skilja neytendahlutverk og eftirlit með verðbréfamarkaði frá öðru eftirliti. Ef sameining er meginmarkmiðið hlýtur að vera heppilegast að Fjármálaeftirlitið í heild sinni sameinist Seðlabankanum,“ nefnir hann.


Tengdar fréttir

Veik rök fyrir innflæðishöftum

Bandarískir hagfræðiprófessorar vilja að innflæðishöftin verði afnumin í skrefum. Rökin fyrir þeim séu veik við núverandi aðstæður. Koma megi í veg fyrir fjármálalegan óstöðugleika eftir öðrum leiðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×