Erlent

Marsjeppinn Opportunity reynir að standa af sér sandstorm

Kjartan Kjartansson skrifar
Nær algert myrkur liggur nú yfir dalnum þar sem Opportunity er. Myndir NASA líkja eftir sjónarhorni jeppans eftir því sem skyggnið hefur versnað af völdum stormsins síðustu daga.
Nær algert myrkur liggur nú yfir dalnum þar sem Opportunity er. Myndir NASA líkja eftir sjónarhorni jeppans eftir því sem skyggnið hefur versnað af völdum stormsins síðustu daga. NASA/JPL-Caltech/TAMU
Verkfræðingar bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA ná ekki sambandi við könnunarjeppann Opportunity sem reynir nú að standa af sér gríðarlegan sandstorm sem gengur yfir reikistjörnuna Mars. Þeir telja að jeppinn hafi lagst í dvala því sandurinn skyggir á sólarrafhlöður hans.

Stomurinn sást fyrst á mælitækjum NASA í lok maí og var vísindastörfum Opportunity frestað af völdum hans í síðustu viku. Honumhefur aðeins vaxið ásmegin síðan. Sandbylurinn þekur nú 35 milljón ferkílómetra svæði eða fjórðung alls yfirborðs Mars, að því er segir á vefsíðu NASA. Til samanburðar er Asía um 44 milljón ferkílómetrar að flatarmáli.

Gríðarlega mikið ryk er í loftinu yfir Þrautseigjudalnum þar sem Opportunity er staddur og þar ríkir nú nær algert myrkur. Verkfræðingarnar telja að jeppinn fái ekki nægilega mikið sólarljós til ræsa sig aftur í gang næstu dagana.

Opportunity hefur ekið um Mars í fimmtán ár þrátt fyrir að könnunarjeppinn hafi upphaflega aðeins verið hannaður fyrir þriggja mánaða leiðangur. Á þeim tíma hefur hann staðið af sér sandstorma sem eiga sér reglulega stað á rauðu reikistjörnunni. Sandskýið sem liggur yfir staðsetningu geimfarsins nú er hins vegar sagt mun þykkara en í enn stærri stormi sem það fór í gegnum árið 2007.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×