Umfjöllun: Ísland - Litháen 34-31 │Ísland á HM

Benedikt Grétarsson skrifar
Aron Pálmarsson
Aron Pálmarsson Vísir/EPA
Íslenska karlalandsliðið í handbolta verður meðl þátttökuþjóða á heimsmeistaramótinu sem haldið verður í Þýskalandi og Danmörku í byrjun næsta árs. Þetta varð ljóst eftir 34-31 sigur gegn Litháen í Laugardalshöllinni en Ísland vann einvígi liðanna samtals 61-58.

Fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson var gjörsamlega frábær og skoraði 10 mörk. Theodór Sigurbjörnsson og Aron Pálmarsson skoruðu báðir fimm mörk. Björgvin Páll Gústavsson varði 16 skot í markinu og Ágúst Elí Björgvinsson varði tvö skot, þar af eitt vítakast.

Eftir mikla dramatík og nauðsynlega ákveðni, var úrslitum fyrri leiksins í Litháen breytt og liðin mættu því til leiks með jafna stöðu í farteskinu, 27-27.

Aron Pálmarsson skoraði fyrsta mark leiksins en þá tóku ólseigir Litháar öll völd og virkuðu einfaldlega betri á upphafskafla leiksins. Gestirnir komust í 7-9 og áttu ákaflega auðvelt með að skora gegn íslensku vörninni.

Það var helst úr vítaköstum sem Ísland skoraði og þar var Arnór Þór Gunnarsson öryggið uppmálað í fyrstu þremur skotu sínum. Fjórða vítið fór hins vegar beint í höfuð markmanns Litháa og Arnóri var umsvifalaust vikið af leikvelli með rautt spjald.

Þetta áfall virtist þó þjappa okkar mönnum betur saman og vörnin fór í kjölfarið að virka betur. Sóknarlega mataði Aron Pálmarsson menn með snilldarsendingum og fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson hrökk heldur betur í gang.

Guðjón skoraði fjögur mörk á örskammri stundu og skyndilega voru það Íslendingar sem voru með ágæt tök á leiknum. Ísland komst mest fjórum mörkum yfir í stöðunni 18-14 en tvö mörk Litháa á lokamínútunni gáfu gestunum heldur betur von fyrir seinni hálfleikinn.

Hafi menn haldið að Litháar gæfu eftir í seinni hálfleik, þá var það fjarri lagi. Gestirnir börðust eins og ljón allan leikinn og það var alveg sama hversu oft maður hélt að Ísland væri að stinga af, alltaf komu Litháar til baka inn í leikinn.

Sóknarleikurinn gekk áfram ágætlega en í vörninni voru strákarnir í töluverðum vandræðum einn gegn einum. Taugarnar voru augljóslega þandar til hins ítrasta og eins og búast mátti við, þá sáust nokkrir tæknifeilar hjá báðum liðum.

Það var ekki fyrr en á lokamínútum leiksins að strákarnir okkar náðu að rífa sig frá örþreyttum leikmönnum gestanna og landa HM-sætinu sem reynist íslenskum handbolta svo mikilvægt.

Til hamingju strákar, sjáumst í Þýskalandi og Danmörku í janúar.

Afhverju vann Íslands?

Ísland á betra lið en Litháen í handbolta, svo einfalt er það. Einstaklingsgæðin hjá lykilmönnum Íslands skinu í gegn á ögurstundu og það var vissulega líka að hjálpa okkar mönnum að besti leikmaður Litháen, Jonas Truchanovicius meiddist í fyrri hálfleik og kom ekkert meira við sögu.

Hverjir stóðu upp úr?

Guðjón Valur Sigurðsson svaraði heldur betur gagnrýnsröddum eftir fyrri leikinn og var algjörlega frábær á báðum endum vallarins. Björgvin Páll varði vel nánast allan leikinn og innkoma Ágústs Elí var mjög mikilvæg. Theodór Sigurbjörnsson svaraði kallinu í hægra horninu eftir að Arór fékk rauða spjladið. Áhorfendur eiga líka stórt hrós skilið.

Hvað gekk illa?

Það gekk illa að eiga við Aidenas Malasinskas (nr.7), sem annað hvort skoraði mörk eða lagði upp færi fyrir félaga sína. Það gekk líka illa að koma boltanum framhjá Giedrius Morkunas í markinu en „Goggi“ varði 17 skot og fór frekar illa með Aron Pálmarsson á kafla í leiknum.

Hvað gerist næst?

Sumarfrí og allir brosandi. Nú tekur við stuðningur fyrir karlalandsliðið okkar á HM í Rússlandi og svo fjölmennum við til Þýskalands og Danmerkur í janúar 2019. Ég er sannfærður að það verður frábært mót í alla staði og Íslendingar geta verið spenntir fyrir þessu landsliði sem Guðmundur Guðmundsson stýrir af festu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira