Innlent

Hafna mengandi stóriðju, skoða styttingu vinnuviku og lækkun fasteignaskatta

Birgir Olgeirsson skrifar
Fulltrúar meirihlutans í Reykjanesbæ kynna málefnasamninginn.
Fulltrúar meirihlutans í Reykjanesbæ kynna málefnasamninginn. Vísir/Einar Árnason

Nýr meirihluti Reykjanesbæjar hafnar mengandi stóriðju í Helguvík. Þetta kemur fram í málefnasamningi Samfylkingar, Framsóknarflokks og Beinnar leiðar sem hafa myndað meirihluta í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.

Í samningnum er greint frá nýju Framtíðarráði sem mun fjalla um starfsemina í Helguvík og er ætlað að leita lausna svo tryggja megi að atvinnuuppbygging í Reykjanesbæ sé ávallt í sátt við íbúa.

Er stefnt að því að vinna áfram að uppbyggingu í Helguvík með það að leiðarljósi að nýta hafnarmannvirki og efla enn frekar kjarnastarfsemi Reykjaneshafnar.

Framtíðarráðið á einnig að fjalla um útfærslur á sveigjanlegum vinnutíma og styttingu vinnuvikunnar.

Þá ætlar þessi meirihluti að þrýsta á ríkisvaldið að ráðast í nauðsynlegt viðhald á Reykjanesbraut og klára tvöföldun hennar sem fyrst.

Framtíðarráð nýs meirihluta á að fjalla um útfærslur á sveigjanlegum vinnutíma og styttingu vinnuviku. Vísir/Einar Árnason

Lögð verður áhersla á að efla umhverfisvitund bæjarbúa varðandi flokkun heimilissorps og fegrun bæjarins. Framkvæmd verður úttekt af óháðum aðilum á áhrifum mengandi starfsemi á lífsgæði bæjarbúa.

Nýju Markaðs-, atvinnu- og ferðamálaráði (MAF) er ætlað að hafa forgöngu um að laða að fyrirtæki í hátækniiðnaði sem nýta sér vistvæna orku, nálægð við alþjóðaflugvöll og fyrsta flokks hafnaraðstöðu. Möguleikar í komu minni skemmtiferðaskipa til svæðisins verði skoðaðir með tilheyrandi þjónustu við ferðamenn.

Þá verður stefnt að því að ná lögbundnu skuldaviðmiði fyrir árið 2022 og er stefnt að því að lækka fasteignaskatta á kjörtímabilinu í ljósi hækkunar fasteignamats í bænum.

Í málefnasamningnum er sérstaklega talað um bjarta tíma sem eru framundan í Reykjanesbær og hann sagður brátt verða fjölmennasta bæjarfélag landsins utan höfuðborgarsvæðisins.

Mikil fólksfjölgun og breytt samfélagsmynstur kalli á aukna þjónustu og hraða uppbyggingu innviða.

Lesa má málefnasamninginn í heild sinni hér. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.