Fótbolti

Sjáðu ferðamannaparadísina þar sem landsliðið dvelur

Kolbeinn Tumi Daðason í Kabardinka skrifar
Þessi gestur naut blíðunnar á ströndinni þar sem finna má mikla afþreyingu fyrir unga sem aldna.
Þessi gestur naut blíðunnar á ströndinni þar sem finna má mikla afþreyingu fyrir unga sem aldna. Vísir/Vilhelm
Ef marka má fyrstu fimm dagana af veru íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í rússneska bænum Kabardinka er um að ræða ferðamannaparadís á jörð. Aðeins átta þúsund manns búa í bænum en stór hluti þeirra sem eru á ferð eru léttklæddir ferðamenn.

Frá því að landsliðið lenti á flugvellinum í Gelendzhik á laugardaginn hefur sólin skilið og hitinn verið mikill. Mest hefur hann farið í um 30 stig en yfirleitt verið hæst um 28 stig yfir daginn.

Það tekur orku að æfa í slíkum hita og það er mögulega ein ástæða þess að Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari gaf leikmönnum sínum frí í dag.

Hérna fer fólkið niður á strönd, kælir sig í Svartahafinu, liggur á bakkanum, skoðar auglýsingaskilit með Aroni Einari Gunnarssyni, keyrir um á eldgamalli fjólublárri Lödu eða tekur sjálfur. Nóg er af afþreyingu niðri við ströndin þar sem auðvelt er að komast í tívolítæki, prófa þrautir og fá sér í gogginn.

Strákarnir hafa flestir kynnt sér bæinn í hjólatúr. Fimm leikmenn fóru með Magnúsi Gylfasyni, formanni landsliðsnefndar, í hjólatúr í gær og fleiri voru á ferðinni. Þjálfararnir tóku forskot á sæluna í fyrradag og tóku Frederik Schram með sér.

Að neðan má sjá myndir sem Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, tók á göngu sinni niður á strönd.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×