Lífið

Ótrúleg vegferð þvottabjarnar skók netheima

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þvottabjörninn í hæstu hæðum. Hann komst óhultur upp á þak skýjakljúfsins.
Þvottabjörninn í hæstu hæðum. Hann komst óhultur upp á þak skýjakljúfsins. Twitter/timnelson_mpr
Þrautseigur þvottabjörn, sem kleif 25 hæða skýjakljúf í borginni St. Paul í Minnesota-ríki í Bandaríkjunum í gær, hefur vakið gríðarlega lukku á samfélagsmiðlum. Fjölmargir fylgdust með ferð bjarnarins upp bygginguna en segja má að henni hafi verið lýst í beinni útsendingu á netinu.

Fyrstu fréttir af þvottabirninum bárust síðdegis á þriðjudag. Hér að neðan má sjá mynd sem Twitter-notandi tók út um glugga á 13. hæð skýjakljúfsins en þar sést björninn klifra utan á vegg hússins og stefnir upp. Á þessum tímapunkti var ferðalagið aðeins rétt að byrja.



Samfélagsmiðlanotendur á efri hæðum byggingarinnar deildu einnig myndum af þvottabirninum eftir því sem hann fikraði sig hærra upp en þess má geta að þegar svo hátt er komið er ekki hægt að opna glugga hússins. Þvottabjörninn sást til að mynda hvíla sig á gluggasyllu á 22. hæð og þá voru birtar myndir af slökkviliðsmönnum sem mátu það svo að ekki borgaði sig að ráðast í björgunaraðgerðir. Betra væri að bíða þar til hann næði upp á topp.

 

Þvottabjörninn komst að lokum heilu og höldnu upp á þak byggingarinnar þar sem beið hans kattamatur. Birninum var að því búnu komið í öruggt skjól á miðvikudagsmorgun.

Áhugasamir geta kynnt sér ferðalag þvottabjarnarins undir myllumerkinu #mprraccoon á Twitter. Þá má horfa á úttekt breska ríkisútvarpsins á málinu neðst í fréttinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×