Erlent

Svörtustu spádómar um loftslagsbreytingar að rætast og mannkynið nánast fallið á tíma

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Útlitið hefur sjaldan verið eins dökkt í loftslagsmálum og bráðnun íshellna verður brátt óafturkræf
Útlitið hefur sjaldan verið eins dökkt í loftslagsmálum og bráðnun íshellna verður brátt óafturkræf Vísir/Getty
Íshella Suðurskautslandsins er farin að bráðna miklu hraðar en áður og nú er svo komið að meira en 200 milljarðar tonna af ís renna út í hafið á hverju ári og yfirborð sjávar hækkar um hálfan millimetra árlega.

Alþjóðlegur hópur 80 vísindamanna greindi frá þessu í dag í svartri skýrslu um loftslagsmál. Niðurstöðurnar sýna að íshellan bráðnar nú þrefalt hraðar en fyrir aðeins tíu árum og hraðinn er enn að aukast.

Með sama áframhaldi er útlit fyrir að margir verstu spádómar um loftslagsbreytingar verði að veruleika innan fárra áratuga.

Mannkynið er nánast fallið á tíma vilji það afstýra hnattrænum hörmungum. Til að eiga einhvern möguleika á að laga stöðuna þyrfti að draga verulega úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda nú þegar eða í allra síðasta lagi innan tíu ára. Það er borin von í ljósi nýjustu fregna af loftslagssamþykktum sem Bandaríkjastjórn ætlar ekki að virða.

Ef við lítum aðeins á þróun mála er útlitið dekkra en það hefur verið lengi.

Á fimm ára tímabili frá 1992 til 1997 minnkaði íshella Suðurskautsins að jafnaði um 49 milljarða tonna af ís á ársgrundvelli.

Aðeins áratug síðar, á tímabilinu frá 2002 til 2007, var bráðnunin komin upp í 73 milljarða tonna árlega.

Frá 2012 til 2017 rauk þessi tala upp í 219 milljarða tonna. Það er einfaldlega allt annar veruleiki en íhaldssamari spár gerðu ráð fyrir þegar ríki heims voru að mynda loftslagsstefnu sína.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×