Skoðun

Opinbert einelti hjá Hafnarfjarðarbæ?

Gunnlaugur Stefánsson skrifar
Í vikunni hófst Vinnuskólinn í Hafnarfirði. Þar eiga að vera boðnir velkomnir allir unglingar sem eru á fjórtánda ári og eru að stíga sín fyrstu spor á vinnumarkaðinum. Þetta eru tímamót, vekja með unglingunum eftirvæntingu og skrá dýrmæta minningu. En ekki fyrir alla þegar á reynir.

Sonarsonur minn á þessum aldri, sem er hreyfihamlaður í hjólastól, fékk þau skilaboð frá hafnfirska stjórnsýslukerfinu, að hann væri ekki velkominn alveg strax, skyldi bíða heima, en hafa samband og athuga hvernig staðan verði eftir helgina. Fótfrár tvíburabróðir hans fékk aftur á móti skilaboð frá kerfinu hálfum mánuði áður en vinnan hófst, að hann væri strax velkominn.

Nú hefur kerfissýslan í Hafnarfirði haft allan veturinn til að undirbúa Vinnuskólann. En gleymt að gera ráð fyrir að í bænum búa líka hreyfihamlaðir unglingar í hjólastól. Örfáir einstaklingar skipta líklega engu máli fyrir opinbert kerfi, sérstaklega ef þeir eigi við fötlun að stríða. Það snertir samt og særir viðkvæmt barnshjartað sem hefur lengi hlakkað til að fara á vinnumarkaðinn og fylgja jafnöldrum sínum í lífi og leik.

Er ekki tímabært að kerfið átti sig á að hér á fólk hlut að máli með tilfinningar og þrár? Vonandi gildir það víðast fyrir fólkið í landinu. En ekki í stjórnsýslunni hjá Hafnarfjarðarbæ gagnvart hreyfihömluðum unglingum í hjólastól. Gæti það kallast opinbert einelti?

Höfundur býr að Heydölum í Breiðdal




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×