Innlent

84 milljónir veittar í prestsþjónustu á Landspítalanum í fyrra

Sveinn Arnarsson skrifar
Prestar og djáknar eru hluti af geðsviði spítalans.
Prestar og djáknar eru hluti af geðsviði spítalans. Vísir/vilhelm

Landspítalinn varði 84 milljónum króna í laun, launatengd gjöld og annan rekstrarkostnað presta og djákna við spítalann á síðasta ári. Níu prestar eða djáknar eru starfandi við Landspítalann og sinna sálgæslu við spítalann.

Aðeins prestlærðir einstaklingar innan hinnar íslensku þjóðkirkju eru starfandi við spítalann. Aðrir trúarsöfnuðir taka ekki gjald fyrir þjónustu sem þessa. Fram kemur í skriflegu svari Önnu Sigrúnar Baldursdóttur, aðstoðarmanns forstjóra Landspítalans, að 6,5 stöðugildi presta og djákna séu við spítalann sem skipti með sér sólarhringsþjónustu allan ársins hring.

„Meginverkefni þessara starfsmanna snúa að sálgæslu og var heildarkostnaður 83,9 milljónir króna á síðasta ári.“ Við sjúkrahúsið á Akureyri er einnig starfandi prestur í 75 prósent starfshlutfalli sem sinnir sálgæslu við spítalann.

Þegar óskað er eftir því að sjúklingar fái til sín presta eða trúarleiðtoga frá öðrum söfnuðum á Íslandi virðist það vera spítölunum, bæði á Akureyri og í Reykjavík, að kostnaðarlausu.

Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga, segir sig ekki reka minni til þess að hafa fengið rukkun fyrir sálgæslu annarra trúarsafnaða og taldi öruggt að ef svo væri, væri kostnaðurinn alls ekki íþyngjandi fyrir spítalann.

Að sama skapi hefur það aukist upp á síðkastið, samkvæmt LSH, að pólskir sjúklingar óski sálgæslu frá kaþólsku kirkjunni. Innan þeirra trúarbragða er þjónustan veitt án þess að sjúkrahús landsins þurfi að reiða fram fé. Um 100 þúsund einstaklingar standa nú utan hinnar íslensku þjóðkirkju og hefur þeim fækkað jafnt og þétt á síðustu árum sem vilja vera í þjóðkirkjunni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.