Sport

Aníta bætir sig í hverju hlaupi þessa dagana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aníta Hinriksdóttir.
Aníta Hinriksdóttir. Vísir/Anton
Íslenska hlaupadrottningin Aníta Hinriksdóttir úr ÍR er að finna taktinn sinn þessa dagana og um leið er hún að ná besta tíma ársins í hverju hlaupinu á fætur öðru.

Aníta náði sínum besta tíma í 800 metra hlaupi á árinu á sterku móti í Ostrava í Tékklandi í gær þegar hún kom í markið á 2:01,92 mínútum.

Þetta dugði henni í sjötta sætið á mótinu. Sigurvegarinn var Rababe Arafi frá Marokkó en hún hljóp á 1:59,20 mínútum en önnur var Noélie Yarigo frá Benín á 2:00,89 mínútum.

Úkraínsk, eþíópísk og bresk hlaupakona komu síðan líka á undan Anítu í mark. Þetta voru þær Olha Lyakhova, Genzebe Dibaba og Lynsey Sharp. Úrslitin eru hér.

Þarna voru aðeins þrír dagar liðnir síðan að Aníta hafði bætt besta árangur sinn á árinu í demantamóti í Stokkhólmi. Aníta hljóp þá 800 metrana á 2:02,21 mínútum sem skilaði henni í fjórða sætið.

Íslandsmet Anítu er síðan 15. júní í fyrra þegar hún hljóp 800 metrana á 2:00,05 mínútum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×