Golf

Glæsileg byrjun hjá Ólafíu Þórunni

Ísak Jasonarson skrifar
Ólafía og kylfusveinn hennar Ragnar Már Garðarsson á æfingahring á Opna bandaríska risamótinu á dögunum.
Ólafía og kylfusveinn hennar Ragnar Már Garðarsson á æfingahring á Opna bandaríska risamótinu á dögunum. vísir/friðrik

Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék í dag fyrsta hringinn á Mejer Classic mótinu á þremur höggum undir pari og er nálægt toppbaráttunni.

Mótið er hluti af LPGA mótaröðinni og eru flestir af bestu kylfingum heims meðal keppenda.
 
Ólafía Þórunn hóf leik á 10. teig í dag og hafði hægt um sig til að byrja með. Eftir sex holur var hún á höggi yfir pari en þá tók við frábær kafli þar sem hún lék næstu sex holur á þremur höggum undir pari.
 
Ólafía var svo á höggi undir pari áður en hún fékk frábæran örn á næst síðustu holu dagsins og endaði hringinn á þremur höggum undir pari.
 
Þegar fréttin er skrifuð er Ólafía jöfn í 21. sæti, einungis fimm höggum á eftir efstu kylfingum. Hún hefur verið nálægt því að komast í gegnum niðurskurðinn í síðustu mótum en á morgun komast um 70 efstu kylfingarnir áfram.

Miðað við spilamennsku hennar í dag verður að teljast líklegt að hún komist áfram. Kelly Shon og So Yeon Ryu fóru best af stað í mótinu en þær eru jafnar í forystu á 8 höggum undir pari.
 
Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.