Fótbolti

Vinur Jesus lak byrjunarliðinu á Instagram

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Brassarnir þykja sigurstranglegir á HM í Rússlandi
Brassarnir þykja sigurstranglegir á HM í Rússlandi vísir/getty
Fréttir af uppstillingu í fyrsta leik á HM eru líkt og hernaðarleyndamál hjá mörgum þjóðum og passa þjálfarar gjarnan vel upp á að enginn utanaðkomandi fái að fylgjast með liðinu æfa taktískar færslur og annað í þeim dúr.

Fjölmiðlamenn fá að fylgjast með í upphafi æfinga en þurfa svo frá að hverfa eftir ákveðinn tíma.

Sami hátturinn var á hjá Brasilíumönnum sem undirbúa sig fyrir leik gegn Sviss næstkomandi sunnudag. Hins vegar ákvað Tite að leyfa einhverjum aðilum sem voru nátengdir leikmönnum að sitja lengur og fylgjast með æfingu liðsins í gær.

Einn af þeim sem fékk að fylgjast með var félagi sóknarmannsins skæða, Gabriel Jesus, og hann ákvað að taka upp myndband af æfingunni sem hann setti svo inn á Instagram síðu sína. Hann var fljótur að eyða því út en ekki nógu fljótur því fjölmiðlar komust yfir klippuna.

Samkvæmt því sem sást á myndbandinu mun Brasilía stilla liði sínu upp á eftirfarandi hátt; Alisson - Danilo, Thiago Silva, Miranda, Marcelo - Casemiro, Paulinho, Philippe Coutinho - Willian, Neymar, Gabriel Jesus.

Það verður spennandi að sjá hvort þetta reynist rétt en leikur Brasilíu og Sviss hefst klukkan 18:00 sunnudaginn 17.júní.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×