Íslenski boltinn

Rasmus tvíbrotinn og fór í aðgerð í morgun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rasmus Christiansen í leik með Val.
Rasmus Christiansen í leik með Val. Vísir/Daníel
Rasmus Christiansen, sem var borinn af velli í leik ÍBV og Vals, í gær er tvífótbrotinn og var fluttur með sjúkraflugi frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur í gærkvöldi. Hann gekkst svo undir aðgerð í morgun.

Það mátti sjá strax á viðbrögðum annarra leikmanna í leiknum í gær að meiðsli hans væru alvarleg eftir að hann lenti í samstuði við Sigurð Grétar Benónýsson. Blaðamaður Vísis á leiknum í gær sagði í umfjöllun sinni um leikinn að það hafi mátt heyra smellinn um allt svæðið, þegar Rasmus brotnaði.

Enn er eðlilega óljóst hvenær Rasmus muni snúa aftur á knattspyrnuvöllinn en þrír og hálfur mánuður eru eftir af tímabilinu í Pepsi-deild karla.

Rasmus hefur komið við sögu í öllum leikjum Vals í Pepsi-deildinni til þessa nema einum. Hann á að baki meira en 100 leiki í efstu deild og hefur skorað í þeim þrjú mörk. Hann hefur spilað með Val, ÍBV og KR hér á landi.

Valur hafði betur í leiknum í gær, 1-0, með marki Kristins Freys Sigurðssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×