Skoðun

Óábyrgt kattarhald

Arna Einarsdóttir skrifar
Á ýmsum gæludýrasíðum má sjá auglýst gæludýr gegn gjaldi, t.d. fór þar naggrís gjarnan fyrir 15 þúsund krónur fyrir nokkrum mánuðum. Kettlingar og kettir fást þar hins vegar allir gefins og jafnvel fylgir þeim eitt og annað sem getur nýst dýrinu. Klárlega er um offjölgun katta að ræða og allir geta fengið sér kött, líka þeir sem ekki tíma að borga neinn dýralæknakostnað. Fólk getur leyft dýrunum sínum að fjölga sér að vild og það þykir líka svo krúttlegt að eiga kettlinga. Kettlingar verða hins vegar fljótt fullorðnir kettir og margir eru þá fljótir að losa sig við þá.

Það er gífurlegt ábyrgðarleysi að sleppa út frjósömu gæludýri og ætti að mínu mati ekki að vera neinum leyfilegt hvorki í bæjarfélögum né til sveita. Bændur eru ekki skárri en almenningur þegar kemur að óábyrgu kattarhaldi og fer það reglulega úr böndunum hjá þeim. Eitt sinn heyrði ég bónda stæra sig af því að halda köttunum sínum svöngum svo þeir sinntu starfi sínu, músaveiðunum, betur. Sami bóndi taldi sig ekki þurfa að gelda læður sínar því þegar þær gytu fleiri kettlingum en hann kæmi út, tæki hann fram byssuna. Er það löglegt? Að minnsta kosti ekki siðlegt og svo gjörsamlega ónauðsynlegt ef læðurnar væru bara geldar. Annar bóndi vildi viðhalda stofni sínum.

Við tölum ekki um sérstaka stofna katta til sveita á Íslandi. Þar eru húskettir og af húsköttum á alltaf eftir að vera nóg. Bæjarfélög gera mörg hver reglulegar rassíur þar sem kettir eru veiddir í tugatali og þeir aflífaðir, þar á meðal kettlingafullar læður og læður með kettlinga.

Finnst okkur það smekkleg vinnubrögð árið 2018? Er ekki löngu kominn tími til að Íslendingar um allt land, bæði í bæjarfélögum og til sveita, fari að hysja upp um sig buxurnar og hætta að lifa eins og fáfróð illmenni og fautar og beri virðingu fyrir lífi annarra en þeirra eigin?

Á landinu starfa bæði einstaklingar og samtök við gríðarlega gott sjálfboðaliðastarf gegn offjölgun katta en fólk um allt land kemst upp með að vinna beinlínis gegn þeirra starfi með einskærri heimsku.

Höfundur er líffræðingur og framhaldsskólakennari.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×