Lífið

„Ef ég ætti að halda með einhverjum á HM þá héldi ég með Íslandi“

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Bill Murray var yfir sig hrifinn af naglalakki og skóm fréttamanns Stöðvar 2, eins og sést á meðfylgjandi mynd.
Bill Murray var yfir sig hrifinn af naglalakki og skóm fréttamanns Stöðvar 2, eins og sést á meðfylgjandi mynd. Vísir/Egill
Kvikmyndaleikarinn Bill Murray er hrifinn af íslensku hvalkjöti og brennivíni en minna spenntur yfir veðrinu. Þá heldur hann með Íslandi á HM í fótbolta en Murray kemur fram í Eldborgarsal Hörpu í kvöld og annað kvöld í tilefni af Listahátíð í Reykjavík.

Hann stígur á stokk ásamt hópi klassískra tónlistarmanna á heimsmælikvarða. Áhorfendur munu ekki geta gert sér í hugarlund við hverju þeir eigi að búast af sýningunni fyrirfram að sögn Murray, enda kveðst hann varla vita það sjálfur.

Murray kynntist sellóleikaranum Jan Vogler, sem starfar með honum að sýningunni, fyrir tilviljun í flugvél en þeir kynntu sér aðstæður í Eldborgarsal Hörpu fyrir sýninguna í kvöld og fréttastofa slóst með í för. Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá vægast sagt óhefðbundið viðtal við þennan litríka karakter sem stígur aftur á stokk í Eldborg annað kvöld.

Í myndskeiðinu má sjá að erfiðlega gekk að fá Murray til að setjast niður með fréttamanni. Viðtalið fór að miklu leyti fram þannig að Murray kallaði svör sín við spurningum fréttamanns fram af svölum Eldborgar. Þegar loksins náðist að fá Murray til að setjast niður hafði hann meiri áhuga á naglalakki og skóm fréttamannsins, sem voru „í stíl“ að sögn Murrays, en spurningum um sýninguna.

Þá lýsti Murray yfir stuðningi sínum við íslenska karlalandsliðið í fótbolta á HM en hann klæddist húfu í íslensku fánalitunum meðan á viðtalinu stóð.

„Ef ég ætti að halda með einhverjum á HM þá héldi ég með Íslandi.“

Viðtal Stöðvar 2 við Bill Murray má sjá í heild í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×