Erlent

Reiði vegna morðs á grínista

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Eurydice Dixon var myrt á þriðjudagskvöld.
Eurydice Dixon var myrt á þriðjudagskvöld. THE AGE
Morð á ungum áströlskum grínista hefur vakið gríðarlega reiði þar í landi. Hin 22 ára gamla Eurydice Dixon hafði verið að ganga heim eftir uppistandssýningu hennar í Melbourne á þriðjudagskvöld. Á heimleiðinni var ráðist á Dixon og henni nauðgað, áður en lík hennar var skilið eftir á fótboltavelli.

Nítján ára karlmaður liggur undir grun og hefur verið kærður vegna árásarinnar.

Ástralskir samfélagsmiðlar hafa logað vegna morðsins og kallað er eftir vitundarvakningu um kynbundið ofbeldi í landinu. Mál Dixon þykir minna um margt á morð sem framið var í Melbourne árið 2012. Morðið leiddi til fjölmennra mótmæla þar sem kallað var eftir aðgerðum í málaflokknum.

Mannréttindasamtök segja að kynbundið ofbeldi sé gríðarstórt vandamál í Ástralíu. Úttekt ástralskra stjórnvalda leiddi í ljós að ein af hverjum 5 konum og 5% prósent karla hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Dixon hefur verið minnst sem hæfileikaríks grínista sem tvinnaði jafnréttismál og réttlætisþrá inn í uppistönd sín.

Morðið á Dixon hefur blásið nýju lífi í umræðuna um kynbundið ofbeldi í Ástralíu. Netverjar hafa til að mynda verið duglegir að gagnrýna skilaboð lögreglunnar í tengslum við mál hennar. Á blaðamannafundi um málið sagði talsmaður lögreglunnar að fólk ætti að vera meðvitað um aðstæður sínar þegar það gengur heim á kvöldin.

Það þykir netverjunum til marks um afleitan hugsunarhátt: Það séu ekki þolendur sem eiga að bera ábyrgðina heldur fautarnir sem ráðast á þá í skjóli nætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×