Lífið

Ert þú klár í fyrsta leik Íslands á HM?

Sylvía Hall skrifar
Frá EM-torginu á Ingólfstorgi árið 2016. Áfram verður hægt að sjá leikina á Ingólfstorgi en aðalsvæðið í miðbænum verður í Hljómskálagarðinum, þar sem leikurinn verður sýndur á 40 fermetra skjá.
Frá EM-torginu á Ingólfstorgi árið 2016. Áfram verður hægt að sjá leikina á Ingólfstorgi en aðalsvæðið í miðbænum verður í Hljómskálagarðinum, þar sem leikurinn verður sýndur á 40 fermetra skjá. Vísir/Eyþór
Á morgun er komið að fyrsta leik landsliðsins á heimsmeistaramótinu í fótbolta og það fer ekki fram hjá neinum að HM er í gangi þessa dagana. Víðast hvar má finna hin ýmsu HM tilboð á matvöru og öðrum varningi og mikil dagskrá er í kringum leikinn á morgun um land allt.

Andrés Magnússon, framkvæmdarstjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir Íslendinga kaupa meira í kringum stórmótið og aðrar vörur en vanalega. Mikið er selt af grillmat og greinilegt að margir Íslendingar ætli að bjóða í grill í kringum leiki landsliðsins, og stendur þeim allra hörðustu til boða að kaupa HÚH-hamborga á grillið.

Hvar er hægt að horfa á leikinn?

Leikurinn verður sýndur víðs vegar um höfuðborgarsvæðið og land allt á morgun, en í Hljómskálagarðinum er hægt að horfa á leikinn á 40 fermetra risaskjá og verður ýmislegt annað í boði, til að mynda hoppukastali, leiktæki og veitingasala. Svæðið opnar klukkan 11 í fyrramálið og má búast við miklum fjölda að fylgjast með leiknum.

Einnig verður leikurinn sýndur á Ingólfstorgi líkt og síðustu ár sem og á risaskjá í Hjartagarðinum. Fyrir þá sem kjósa frekar að halda sig innandyra verður hægt að horfa á leikinn í Bíó Paradís og er frítt inn.

Í Vesturbænum verður hægt að sjá leikinn á sundlaugartúninu við Vesturbæjarlaug, Kópavogsbúar geta horft á leikinn á Rútstúni og í Garðabæ verður leikurinn sýndur á Garðatorgi. Í Hafnarfirði verður bein útsending frá Thorsplani þar sem hægt verður að kaupa HM vörur í fánalitum og matur og drykkur verður á HM tilboði. Strandgötu verður breytt í göngugötu fyrir og eftir leik og því eru bæjarbúar hvattir til að nýta sér aðra fararskjóta en bíl.

Á Akureyri verður settur upp 15 fermetra risaskjár í Listagilinu og í Vestmannaeyjum verður hægt að sjá íslenska liðið mæta Argentínu á risaskjá á Stakkagerðistúni.

 

Hvernig er best að koma sér á staðinn?

Búast má við því að mikill fjöldi fólks muni koma saman á opinberum stöðum til þess að fylgjast með leiknum og því ágætt að leggja tímanlega af stað eða nýta sér almenningssamgöngur. 



Össur Pétur Valdimarsson glaðbeittur í vinnunni.Fréttablaðið/ernir
Þeir allra heppnustu gætu endað í vagninum hjá Össuri Pétri Valdimarssyni, vagnstjóra, sem hefur skreytt vagninn sinn hátt og lágt fyrir heimsmeistaramótið með fánum og öðru í þeim litum.

Sjálfur er hann klæddur fánalitunum og mun stoltur styðja liðið okkar yfir heimsmeistaramótið og því kjörið að taka strætó í von um að hitta á hann.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×