Erlent

Argentískir fjölmiðlar: "Vonbrigði og vanmáttur, landsliðið var ekki lið“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Einn og yfirgefinn og jafnvel bugaður Messi eftir leikinn gegn Íslandi í dag.
Einn og yfirgefinn og jafnvel bugaður Messi eftir leikinn gegn Íslandi í dag. vísir/getty
Eins og gefur að skilja eru argentískir fjölmiðlar ekki beint í skýjunum með frammistöðu argentíska landsliðsins gegn því íslenska á Spartak-leikvanginum í Moskvu í dag.

Þeir gera mikið úr frammistöðu Lionel Messi sem klúðraði víti þegar Hannes Þór Halldórsson varði frá honum og segja liðið hafa valdið vonbrigðum.

Jafntefli var niðurstaða leiksins, eins og flestir Íslendingar ættu að vita, og eflaust erum við flest bara frekar sátt við stigið í frumrauninni á HM í knattspyrnu.

Pressan var líka öll á Argentínu og þeim sem margir telja besta knattspyrnumann allra tíma, Messi. Þeir hafa án efa ætlað að rúlla yfir litla Ísland.

„Umhverfið hafði hvorki áhrif né samhengið sem maður setur HM í. Ef eitthvað mun fara illa, þá mun það fara illa.“

Á þessum orðum hefst umfjöllun á vef argentíska blaðsins La Nación og í fyrirsögn draga þeir fram vítaspyrnuklúður Messi.

„Vandamálin sem maður sá fyrir komu fram í fyrsta leiknum í jafntefli gegn Íslandi. Svo var eitt óvænt: Messi gat ekki fundið liðsfélagana, hann klúðraði víti sem hefði getað breytt sögunni og hann gerði sig sekan um ónákvæmni eins og aðrir í liðinu á lokamínútunum,“ segir svo áfram í umfjöllun blaðsins.

Fyrirsögnin á vef stærsta dagblaðs Argentínu, Clarín, er svo á þessa leið:

„Vonbrigði og vanmáttur, landsliðið var ekki lið.“

Á vef La Gaceta er fyrirsögnin síðan eftirfarandi:

„Argentína gat ekki brotið íslenska lásinn og gerðu aðeins jafntefli í fyrsta leik.“

Á vef Infobae eru vonbrigðin dregin fram:

„Argentína olli vonbrigðum í fyrsta leik: 1-1 jafntefli á móti Íslandi og þeir lokuðu á víti frá Messi.“

Ef umfjöllun argentískra fjölmiðla endurspeglar eitthvað hvernig argentísku þjóðinni líður eftir leikinn þá má alveg halda því fram að Argentínumenn séu ekkert sérstaklega sáttir við landsliðið sitt í dag.


Tengdar fréttir

„Ísland sjokkerar fótboltaheiminn aftur“

Erlendir fjölmiðlar lofuðu margir hverjir Hannes Þór Halldórsson og löstuðu Lionel Messi eftir leik Íslands gegn Argentínu í fyrsta leik Íslands á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×