Erlent

Ökumaður leigubílsins var hundeltur af gangandi vegfarendum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ökumaðurinn óttaðist um eigið líf.
Ökumaðurinn óttaðist um eigið líf. Vísir
Ökumaður leigubílsins sem ekið var á gangandi vegfarendur í miðborg Moskvu í gær segist hafa óttast um að aðrir vegfarendur myndu ganga frá sér eftir slysið. Hann segir að rekja megi áreksturinn til þess að hann hafi óvart ýtt á bensíngjöf bílsins í stað bremsunnar. BBC greinir frá.

Átta slösuðust í árekstrinum en meðal þeirra voru mexíkóskir knattspyrnuaðdáendur sem staddir eru í borginni til að fylgjast með heimsmeistaramótinu sem þar fer fram. Í myndskeiði úr öryggismyndavélum á svæðinu sést að ökumaðurinn tók skarpa beygju út úr bílaröð og ók bílnum upp á gangstétt.

Á öðru myndskeiði má einnig sjá ökumanninn hlaupa af vettvangi með aðra vegfarendur á eftir sér. Ökumaðurinn er 28 ára gamall kirgiskur ríkisborgari. Segist hann hafa verið að störfum í tuttugu tíma áður en slysið átti sér stað og að hann hafi aðeins náð tveggja tíma svefni áður en vaktin hófst.

„Ég ætlaði að bremsa, því ég vildi hleypa vegfaranda. Það slokknaði á mér í smástund og ég ýtti á bensíngjöfina. Svo sá ég fólkið,“ sagði ökumaðurinn sem var handtekinn á vettvangi. Rannsókn málsins stendur yfir.


Tengdar fréttir

Leigubíl ekið á gangandi vegfarendur í Moskvu

Á meðal hinna slösuðu eru mexíkóskir knattspyrnuaðdáendur sem staddir eru í borginni til að fylgjast með heimsmeistaramótinu sem fer fram í landinu um þessar mundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×