Fótbolti

Kóreumenn skiptast á treyjunúmerum á æfingum því „vestrænir menn þekkja Asíubúa ekki í sundur“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Shin Tae-yong á æfingu Suður-Kóreu
Shin Tae-yong á æfingu Suður-Kóreu Vísir/getty
Svíþjóð og Suður Kórea mætast í fyrsta leik á HM á morgun. Liðin þekkjast ekkert sérstaklega vel og hefur verið mikið drama fyrir leikinn í kringum njósnir Svíanna á andstæðingum sínum.

Einn leikgreinandi Svía, Lars Jacobsson, var fjarlægður af lokaðri æfingu Suður-Kóreumanna á dögunum. Landsliðsþjálfari Svía, Janne Andersson, baðst afsökunar á atvikinu á blaðamannafundi fyrir leikinn í dag en hann sagði Svíana hafa haldið að æfingin væri opin og um misskilning væri að ræða.

Andersson neitaði hins vegar að ræða sögusagnirnar um að Jacobsson hafi leigt íbúð með útsýni yfir æfingasvæði Suður-Kóreumanna. Jacobsson hefur sagt það eitt erfiðasta verkefni hans á ferlinum að njósna um og leikgreina Suður-Kóreumenn.

„Það er mjög mikilvægt að sýna andstæðingnum virðingu og ef við höfum virst gera eitthvað annað þá biðst ég afsökunar á því,“ sagði Andersson á blaðamannafundinum.

Landsliðsþjálfari Suður-Kóreu Shin Tae-yong sagði að þeir hefðu tekið upp á því að láta leikmenn skiptast á treyjunúmerum á æfingum til þess að rugla njósnara Svíanna í ríminu.

Hann sagði „fólk í vesturheiminum eiga erfitt með að þekkja Asíubúa í sundur,“ og þess vegna hefðu þeir tekið upp á þessu athæfi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×