Lífið

Argentínsk ferðaskrifstofa notar fáklæddan Rúrik til að auglýsa flug til Íslands

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rúrik Gíslason hefur sankað að sér nýjum aðdáendum í kjölfar leiks Íslands og Argentínu í gær.
Rúrik Gíslason hefur sankað að sér nýjum aðdáendum í kjölfar leiks Íslands og Argentínu í gær. Vísir/AFP
Argentínska ferðaskrifstofan og -leitarvélin Turismocity notfærði sér vinsældir strákanna okkar í fótboltalandsliðinu í kjölfar leiks Íslands og Argentínu á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í gær. Í færslu, sem ferðaskrifstofan birti á Facebook, er vakin athygli á flugferðum til Íslands og mynd af Rúrik Gíslasyni, miðjumanni íslenska liðsins, látin fylgja með.

„Stelpur og strákar, við bjóðum upp á flug til Íslands fyrir 30 þúsund... Hver ætlar með?“ spyr ferðaskrifstofan og vísar í tengil á vefsíðu sína þar sem hægt er að fjárfesta í Íslandsferðum fyrir um 30 þúsund argentínska pesóa, eða um 114 þúsund krónur íslenskar.

Til að vekja áhuga vænlegra kaupenda hleður ferðaskrifstofan upp mynd af áðurnefndum Rúrik, glaðlegum á svip, ber að ofan og með tvo þumla á lofti. Yfir 13 þúsund manns hafa „líkað“ við færsluna, sem eru töluvert umfangsmeiri viðbrögð en ferðaskrifstofan á að venjast miðað við fyrri færslur á Facebook-síðu hennar.

Vísir fjallaði um stórauknar vinsældir Rúriks á samfélagsmiðlum í gær en skömmu eftir leikinn gegn Argentínu stóð fylgjendafjöldi hans á Instagram í 40 þúsund. Þegar þetta er skrifað er Rúrik með 302 þúsund fylgjendur á miðlinum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×