Innlent

Aldrei áður jafnmörg hraðakstursbrot

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Á föstudaginn birti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu afbrotatölfræði  yfir maímánuð. Óhætt er að segja að ökumenn hafi slegið hraðakstursmet í mánuðinum.

Aldrei áður hafa verið skráð jafn mörg hraðakstursbrot í einum mánuði frá því að mælingar hófust árið 1999. Í heildina voru 3.856 umferðalagabrot skráð niður í maí, sem sýnir umtalsverða fjölgun milli mánaða, en brotin voru 1.648 í apríl. Af þessum 3.856 brotum voru tæplega 3.000 þeirra hraðakstursbrot.

„Meginskýringin er sú að gatnamótamyndavél var tekin í notkun þann 1. mai. Um er að ræða vél sem var í þjónustuskoðun erlendis og var sett nú í notkun í maí. Að mestu leyti koma brotin í gegnum hana,“ segir Árni Friðleifsson, varðstjóri umferðadeildar lögreglunnar á höfuðbrogarsvæðinu.

Áhugavert er að skoða þessa fjölgun í ljósi þess að ökumönnum var ljóst að sektir lögreglu hækkuðu umtalsvert þann 1.mai.

Er ökumönnum ekki umhugað um háar sektir sem nýlega voru lagðar á?

„Það virðist vera svo að sumir ökumenn spái ekki mikið í sektirnar, því miður. Við höfum fengið nokkur alvarleg slys vegna hraðaksturs þar sem slys verður á fólki og tjón á ökutækjum. Því miður er það svo að hraðakstursbrotum er ekki að fækka í beinu sambandi við hækkun á sektum,“ segir Árni.

Þá segir hann hraðakstur oft tengjast veðri.

„Ef það er þurrt úti virðist fólk keyra hraðar. Við hefðum vilja sjá fólk virða þessi hraðatakmörk sem eru hér á höfuðborgarsvæðinu miklu betur. Ég vil skora á ökumenn að virða uppgefinn hámarkshraða,“ segir Árni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×