Erlent

Stór skjálfti í Japan

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Almenningssamgöngur fóru úr skorðum.
Almenningssamgöngur fóru úr skorðum. Vísir/afp
Hið minnsta þrír eru látnir og rúmlega 200 slasaðir eftir að skjálfti af stærðinni 6.1 reið yfir Osakaborg í Japan.

Flugvöllum var lokað, almenningssamgöngur fóru úr skorðum og framleiðsla í verksmiðjum borgarinnar, þar með talið hjá stórfyrirtækjum á borð við Panasonic og Daihatsu, stöðvaðist í nokkrar klukkustundir eftir skjálftann.

Þrátt fyrir það er ekki talið að skjálftinn hafi haft teljandi áhrif á kjarnorkuver eða framkallað flóðbylgju. Því eru engar líkur taldar á að skjálftinn hafi orsakað hamfarir á borð við þær sem áttu sér stað í Fukushima árið 2011.

Meðal hinna látnu var níu ára stúlka sem varð undir vegg í skólanum sínum. Tveir eldri menn létu lífið sömuleiðis, annar þeirra er á vef breska ríkisútvarpsins sagður hafa orðið undir bókahillu.

Þá er fjöldi fólks sagður hafa festst í lyftum, vegir skemmst og vatnslagnir rofnað. Áætlað er að um 170 þúsund heimili séu rafmagnslaus eftir skjálftann og að 100 þúsund hús séu að sama skapi gaslaus.

Spáð er rigningu næstu daga í og við Osaka og óttast veðurfræðingar að bleytan kunni að leiða til skriðufalls og jarðvegshruns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×