Innlent

Yfir 200 ökumenn teknir fyrir of hraðan akstur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þó nokkuð margir ökumenn voru teknir fyrir of hraðan akstur á Norðurlandi um helgina.
Þó nokkuð margir ökumenn voru teknir fyrir of hraðan akstur á Norðurlandi um helgina. fréttablaðið/vilhelm
Alls voru 212 ökumenn teknir fyrir of hraðan akstur um helgina í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi vestra annars vegar og umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra hins vegar. Þetta kemur fram í tilkynningum frá lögregluembættunum á Facebook.

Bíladagar voru á Akureyri um helgina og var lögreglan því með meiri viðbúnað í bænum og næsta nágrenni en ella. Umferðarmálin voru fyrirferðarmest þar sem 78 ökumenn voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur en sá sem ók hraðast var á 135 km/klst.

Tuttugu ökumenn voru svo sektaðir fyrir að vera með litaðar filmur í rúm og þó voru nokkrir ekki með ökuskírteinin með sér. Alls tíu umferðaróhöpp urðu í umdæminu en í einu þeirra voru slys á fólki.

Enginn var tekinn fyrir grun um ölvunarakstur en þrír voru teknir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá voru afskipti höfð af fjórum einstaklingum vegna fíkniefnabrota og voru þau öll minniháttar. Ein líkamsárás var tilkynnt og hafa tveir verið yfirheyrðir vegna hennar.

Eitt kynferðisbrot var síðan kært til lögreglu og var einn maður handtekinn í Reykjavík vegna hennar. Var honum sleppt að lokinni yfirheyrslu.

Í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi vestra voru 134 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur en sá sem hraðast ók mældist á 166 km/klst. Þá voru fimm ökumenn kærðir fyrir önnur umferðarlagabrot og þar á meðal einn fyrir að valda mikilli hættu með glæfralegum framúrakstri. Einn ökumaður var síðan stöðvaður grunaður fyrir akstur undir áhrifum ávana-og fíkniefna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×