Erlent

Lögreglumaður í Texas nauðgaði fjögurra ára hælisleitanda og hótaði móður brottvísun úr landi

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Þessar myndir frá bandarískum yfirvöldum sýna aðbúnað barnanna á meðan þau eru í haldi vikum eða mánuðum saman
Þessar myndir frá bandarískum yfirvöldum sýna aðbúnað barnanna á meðan þau eru í haldi vikum eða mánuðum saman US Customs and Border Protection
Lögreglumaður í Texas í Bandaríkjunum hefur verið handtekinn fyrir að nauðga fjögurra ára stúlku ítrekað og hóta móður hennar brottrekstri frá Bandaríkjunum ef hún segði frá ofbeldinu.

Talið er að ofbeldið hafi staðið í marga mánuði. Móðir stúlkunnar er ólöglegur innflytjandi frá rómönsku Ameríku og sagði lögreglumaðurinn að hann myndi láta reka mæðgurnar úr landi ef þær hlýddu honum ekki. Þær áttu engan að í Bandaríkjunum.

Eftir síðustu árás lögreglumannsins um helgina safnaði móðirin upp kjarki til að fara með dóttur sína á slökkviliðsstöð og greina frá níðingsverkum mannsins. Hún var enn of hrædd til að fara á lögreglustöð en slökkviliðið hafði milligöngu um að ná sambandi við lögregluna og barnaverndaryfirvöld.

Unnið er að því að tryggja henni vernd sem vitni í málinu, sem myndi þýða að mæðgurnar fengju að vera áfram í Bandaríkjunum í bili.

Málið hefur vakið sérstaklega mikinn óhug í Bandaríkjunum vegna þess sem nú er að gerast á landamærunum við Mexíkó.

Þar hafa þúsundir barna verið aðskilin frá foreldrum sínum og vistuð í gömlum vöruhúsum. Það er vegna nýrrar stefnu Trump stjórnarinnar um að handtaka alla fullorðna sem reyna að komast yfir landamærin frá Mexíkó og setja börn þeirra í búðir. Barnaverndarsamtök óttast að fleiri börn verði fyrir barðinu á níðingum í þeirri ringulreið sem þessu fylgir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×