Skoðun

Að kjósa það versta

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Eldri karli, sem vinnur á kaffiteríunni á hóteli einu í bænum Baza, er skelfilega illa við mig. Ástæðan er örugglega sú að ég á það til að koma þarna inn og sitja tímunum saman yfir einum skitnum kaffibolla. Þar að auki sting ég tölvu minni í samband og ráfa um veraldarvefinn í boði hótelsins. Ef ég leyfi mér að fara á salernið mæti ég síðan svip hans sem segir: já, var það ekki? Rennerí á snyrtinguna í þokkabót.

Hann afgreiðir mig venjulega ekki fyrr en hann er búinn að klappa vaskinum drykklanga stund.

En ég hef líka horn í síðu hans. Ekki fyrir hundshausinn gagnvart mér. Hins vegar dettur þarna inn góðmenni eitt á hverjum morgni sem er svo líkur argentínska skáldinu Jorge Luis Borges að ég var að spá í að fá Guðberg til að þýða hann. Hann er reyndar haltur en ekki blindur en það breytir því ekki að þegar ég sit og skrifa heyri ég rödd Borges koma úr munni þessa manns sem er ósköp vinalegt.

Mér var því illa brugðið þegar sá þykkjufulli fer að skamma Borges fyrir að hafa skilið eitthvað eftir í sambandi uppi á herbergi og rekur hann eins og rakka til að kippa því í liðinn.

En hvað er ég þá að gera þarna? Jú, mig grunar að eftir allt saman höfum við lúmskt gaman af því sem hæfir okkur illa. Eða hvernig öðruvísi má útskýra það að fólk horfi á sápuóperur, hlusti á Enrique Iglesias, kjósi auðkýfingaflokka þó það sé blankt og leiti að fréttum og ummælum sem skaprauna því til að getað skrifa önnur ummæli sem enn minni sómi er að? Hvað ætli Borges segi um það?




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×