Erlent

Púan dauð

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Púan var lýst sem rólegum og virðulegum órangútan.
Púan var lýst sem rólegum og virðulegum órangútan. Dýragarðurinn í Perth
Elsti Súmötru-órangútan heims er dauður. Púan var 62 ára gömul og skilur eftir sig 54 afkomendur.

Stjórnendur dýragarðsins í Perth í Ástralíu ákváðu að svæfa dýrið í gær. Púan hefur á síðustu árum þjáðst vegna ýmissa kvilla sem fylgt hafa háum aldri hennar.

Púan hafði hýrst í dýragarðinum frá árinu 1968 og árið 2016 rataði hún svo í heimsmetabók Guinness þegar hún hlaut formlega titilinn elsti Súmötru-órangútan heims. Tegundin er ein tveggja undirtegunda órangútana en hin er kennd við Borneó.

Á vef breska ríkisútvarpsins kemur fram að gríðarlega sjaldgæft sé að órangútanar nái svo háum aldri. Púan eignaðist alls 11 afkvæmi og 54 afkomendur í það heila. Frjósemi hennar var slík að sérfræðingar telja að um 10% allra orangútana í dýragörðum heimsins geti rakið ættir sínar til Púan.

Talið er að um 14.600 Súmötru-órangútanar finnist í heiminum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×