Erlent

„Þú skalt kalla mig herra forseta, skilið?“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Emmanuel Macron var ekki kátur með drenginn í köflóttu skyrtunni.
Emmanuel Macron var ekki kátur með drenginn í köflóttu skyrtunni. Skjáskot
Frakklandsforseti þótti heldur hrokafullur þegar hann ræddi við stuðningsmenn sína í París í gær. Forsetinn var í opinberum erindagjörðum við Mont Valerien, þar sem hundruð meðlima andspyrnuhreyfingarinnar voru teknir af lífi í seinna stríði. Þar höfðu stuðningsmenn forsetans safnast saman og vildu ólmir fá að taka í spaðann á Emmanuel Macron og fá myndir af sér með honum.

Einn stuðningsmannanna var unglingsstrákur sem ávarpaði forsetann með gælunafninu „Manu,“ sem dregið er af fornafninu Emmanuel.

Á myndbandsupptöku má heyra hvernig forsetanum er ekki skemmt. „Nei, þetta máttu ekki gera. Nei, nei, nei, nei,“ sagði Macron við piltinn sem var þar með hópi skólasystkina sinna.

Drengurinn baðst þá afsökunar - „Fyrirgefðu, herra forseti“ - en Macron lét ekki þar við sitja. Hann hélt áfram að skamma drenginn og minnti hann á hvar hann væri staddur. „Þú ert hér, við opinbera athöfn og þú átt að haga þér,“ sagði forsetinn og bætti við: „Þannig að þú skalt kalla mig „herra forseta.“ Skilið?“

Drengurinn er að sama skapi sagður hafa byrjað að syngja hluta af Internasjónalnum, alþjóðasöng verkalýðsins, sem segja má að sé augljóst skot á forsetann og hægri-hugsjónir hans í efnahagsmálum. Það fór í taugarnar á Macron sem sagði að drengurinn þyrfti að næla sér fyrst í einhverja menntun áður en hann ætlaði sér að hefja byltingu.

Orðaskipti Macron og drengsins fóru sem eldur í sinu um netheima - enda eru þau vatn á myllu þeirra sem gagnrýnt hafa forsetann fyrir óheflaðan talsmáta. Macron hefur jafnframt verið sagður forseti hinna ríku og talinn eiga erfitt með að sýna samkennd með fátækum. Þá lét Macron jafnframt hafa eftir sér á síðasta ári að vinstrisinnaðir mótmælendur, sem gagnrýndu hugmyndir hans um breytta vinnumarkaðslöggjöf, væru „letingjar.“

Orðaskiptin má sjá hér að ofan, með enskum texta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×