Sögulegur sigur Japans á Suður-Ameríkuþjóð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Yuya Osako fagnar sigurmarki sínu.
Yuya Osako fagnar sigurmarki sínu. Vísir/Getty
Japanir unnu 2-1 sigur á tíu Kólumbíumönnum í fyrsta leik þjóðanna á HM í fótbolta í Rússlandi í dag. Yuya Osako skoraði sigurmarkið sautján mínútum fyrir leikslok.

Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem Asíuþjóð vinnur Suður-Ameríkuþjóð á heimsmeistaramóti og fyrsti sigur Japans á Kólumbíu í landsleik.

Þetta eru ein óvæntustu úrslitin á HM í Rússlandi en atvik í byrjun leiks hafði mikil áhrif á þróun mála í þessum leik.

Kólumbíumenn urðu nefnlega fyrir miklu áfalli í upphafi leiks þegar Carlos Sánchez fékk rautt spjald á 3. mínútu fyrir að verja skot með hendi. Japanir fengu að auki vítaspyrnu sem Shinji Kagawa nýtti og kom Japan í 1-0.

Kólumbíumenn voru því manni færri í 85 mínútur og það er langt frá því að verja besta leiðin til að byrja heimsmeistaramót.

Það var samt ekki að sjá að Kólumbíumenn voru manni færri í fyrri hálfleiknum því þeir voru mun hættulegri í sínum aðgerðum en Japanir.

Kólumbíumenn fengu nokkur hálffæri og svo aukaspyrnu sem Juan Fernando Quintero skoraði úr rétt fyrir hálfleik. Quintero var klókur, setti boltann undir varnarvegginn sem hoppaði allur upp.

Japanir nýttu hálfleikinn hinsvegar vel, endurskipulögðu sinn leik og tóku öll völd í seinni hálfleiknum.

Japanska liðið var búið að eiga nokkur ágæt færi þegar Yuya Osako skallaði laglega inn hornspyrnu frá Keisuke Honda. Markið kom á 73. mínútu og reyndist vera sigurmarkið.

Kólumbíumenn reyndu að ná jöfnunarmarki á lokamínútunum og sendu meðal annars hinn meidda James Rodríguez inn á völlinn í lokin en það dugði ekki til.

Japanir héldu út og fögnuðu gríðatlega sögulegum sigur sem opnar heldur betur þennan H-riðil sem gæti orðið einn sá mest spennandi í keppninni.





Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira