Skoðun

Sterk eins og dauðinn

Uri Avnery skrifar
Ó, Gaza. Elskan er sterk eins og dauðinn.  

Ég elskaði Gaza. Þetta er orðaleikur. Í Ljóðaljóðunum í Biblíunni segir að ástin sé sterk eins og dauðinn. Á hebresku er sterk Aza. Aza er jafnframt hebreska heitið á Gaza.

Ég hef varið mörgum hamingjuríkum stundum á Gaza. Ég átti þar marga vini. Allt frá hinum vinstrisinnaða Dr. Haidar Abd al-Shafi til islamistans Mahmoud al-Zahar, sem er núverandi utanríkisráðherra Hamas.

Ég var þar þegar Yasser Arafat, sem er ættaður frá Gaza, sneri heim. Ég var settur í fremstu röð í móttökunni við landamæri Rafah og það sama kvöld tók hann á móti mér á hótelinu á Gazaströndinni og skipaði mér sæti við hlið sér á blaðamannafundi.

Ég mætti alls staðar vinsemd á Gazaströndinni, jafnt í flóttamannabúðunum sem á götum Gazaborgar. Alls staðar töluðum við um frið og um stöðu Gaza í framtíðarríkinu Palestínu.

Gott og vel, en hvað með Hamas, erkihryðjuverkasamtökin hræðilegu?

 

Snemma á 10. áratugnum sendi þáverandi forsætisráðherra Ísraels, Yitzhak Rabin, 415 islamska framámenn í útlegð frá Gaza til Líbanons.Líbanirnir hleyptu þeim ekki inn, svo útlagarnir máttu hírast í heilt ár undir berum himni við landamærin.

Við mótmæltum brottrekstri þeirra og settum upp tjaldbúðir andspænis skrifstofu forsætisráðherrans í Jerúsalem. Við dvöldum þar 45 daga og nætur, þar á meðal þá daga sem snjóaði. Í tjaldbúðunum voru gyðingar og arabar, meðal þeirra ísraelskir arabar sem voru islamistar. Við vörðum hinum löngu dögum og nóttum í stjórnmálaviðræður. Um hvað? Auðvitað um frið.

Islamistarnir voru viðkunnalegt fólk og sýndu eiginkonu minni, Rachel, stökustu kurteisi.

Þegar útlögunum var loks leyft að snúa aftur heim var haldin móttaka fyrir þá í stærsta salnum á Gaza. Mér var boðið ásamt hópi félaga minna. Mér var boðið að taka til máls (á hebresku, auðvitað) og eftir það var mér boðið til veislu.

Ég er að rifja þetta allt upp til þess að lýsa andrúmsloftinu sem þá ríkti. Í öllu sem ég sagði lagði ég áherslu á að ég væri ísraelskur föðurlandsvinur. Ég talaði fyrir friði milli tveggja ríkja. Fyrir fyrstu intiföduna (sem hófst 9. desember árið 1987) ríkti ekki myrkt hatur á Gaza. Því fór fjarri.

Fjöldinn allur af verkafólki fór í gegnum eftirlitsstöðvarnar á hverjum morgni til að vinna í Ísrael og það sama gerðu kaupmennirnir sem seldu vörur sínar í Ísrael eða fóru um Ísrael á leið sinni til Jórdaníu, eða fengu vörur sínar í gegnum ísraelskar hafnir.

Hvernig tókst okkur þá – okkur, Ísraelsríki – að gera Gaza að því sem það er í dag?

 

Sumarið 2005 ákvað þáverandi forsætisráðherra Ísraels, Ariel Sharon, að rjúfa öll tengsl við Gazaströndina. „Arik“, sem var í eðli sínu hermaður, komst að þeirri niðurstöðu að kostnaðurinn af hernámi Gazastrandarinnar væri meiri en ávinningurinn. Hann dró herinn og landtökufólkið út af svæðinu og lét svæðið í hendur– hverjum? Engum.

Hvers vegna engum? Hvers vegna ekki PLO sem voru þá þegar viðurkennd stjórnvöld Palestínumanna? Hvers vegna ekki innan ramma sem kveðið væri á um í samningi? Það er vegna þess að Arik hataði Palestínumenn, PLO og Arafat. Hann vildi ekkert með þá hafa. Svo hann lét Gazaströndina bara lönd og leið.

En náttúrunni býður við tómarúmi. Það urðu til stjórnvöld á Gaza. Lýðræðislegar kosningar voru haldnar og Hamas vann í gjörvallri Palestínu. Hamas er trúarleg þjóðernishreyfing sem ísraelska leyniþjónustan (Shin Bet) greiddi upphaflega veginn fyrir til þess að grafa undan PLO. Þegar PLO féllst ekki á niðurstöður kosninganna tóku Hamas stjórnina með valdi. Þannig sköpuðust núverandi aðstæður.

Allan þennan tíma var ennþá jákvæður kostur í stöðunni.

Gazaströndin hefði getað blómstrað. Bjartsýnismenn töluðu um nýja Singapúr. Þeir töluðu um höfn á Gaza með hæfilegu eftirliti með innfluttum vörum, sem færi annaðhvort fram á Gaza eða í hlutlausri höfn erlendis. Flugvöllur á Gaza með viðeigandi öryggiseftirliti var byggður, notaður, og lagður í rúst af Ísrael.

Og hvað gerði ríkisstjórn Ísraels? Hún brást auðvitað þveröfugt við.

Ríkisstjórnin setti Gazaströndina í stranga herkví. Slitið var á öll tengsl milli strandarinnar og umheimsins. Vistir gátu einungis borist í gegn um Ísrael. Ísrael jók eða dróg úr innflutningi nauðsynja eftir eigin geðþótta. Blóðug árásin á tyrkneska skipið Mavi Marmara við sjávarströnd Gaza undirstrikar þá algjöru einangrun sem svæðið sætir.

 

Íbúar Gaza eru nú orðnir um tvær milljónir. Flestir eru þeir flóttamenn frá Ísrael, sem voru hraktir þaðan í stríðinu 1948. Ég get ekki lýst mig saklausan af því – herdeildin mín barðist í suðurhluta Palestínu. Ég sá hvað var að gerast. Ég skrifaði um það.

Með herkvínni varð til vítahringur. Hamas og smærri (og öfgafyllri) hreyfingar beittu andspyrnu (eða „hryðjuverkum“). Ísrael svaraði með því að herða herkvína. Gazabúar svöruðu með meira ofbeldi. Herkvíin versnaði. Og þannig hefur þetta haldið áfram alveg fram í þessa viku.

Hvað með syðri landamæri Gazasvæðisins? Eins furðulegt og það nú er, þá er ísraelsku herkvínni viðhaldið með liðsinni Egyptalands. Og það er ekki einungis vegna gagnkvæms skilnings milli Abd al Fatah al-Sisi, hins einráða egypska herforingja, og leiðtoga Ísraels. Fyrir því eru einnig pólitískar ástæður: ríkisstjórn Sisi hatar Múslimska bræðalagið, innlenda andstöðuhreyfingu sem hún hefur bannað og álitin er móðurfélag Hamas.

Stjórn PLO á Vesturbakkanum styður einnig við herkví Ísraels gegn Hamas, sem er helsti keppinautur hennar í palestínsku stjórnmálastarfi.

Þannig er Gazaströndin næstum fullkomlega einangruð og vinalaus. Að örfáu hugsjónafólki hér og þar í heiminum undanskildu, en það er of vanmáttugt til að geta haft áhrif. Og auðvitað Hezbollah og Íran.

Núna ríkir nokkurs konar jafnvægi. Hreyfingarnar á Gaza fremja ofbeldisverk sem valda Ísraelsríki engum raumverulegum skaða. Ísraelsher hefur enga lyst á að hernema Gazaströndina aftur. Og þá uppgötvuðu Palestínumenn nýtt vopn: ofbeldislausa andspyrnu.

Fyrir mörgum árum kom arabísk-bandarískur aktívisti, sem var lærisveinn Martins Luther King, til Palestínu til að predika þessa aðferð. Hann fann engan hljómgrunn og sneri aftur til Bandaríkjanna. Síðan reyndu Palestínumenn þessa aðferð í upphafi seinni intifödunnar. Ísraelsher svaraði því með skotárás. Við heiminum blasti mynd af litlum dreng sem var skotinn í fangi föður síns. Herinn neitaði ábyrgð eins og ævinlega. Ofbeldislausa andspyrnan dó með drengnum. Intifadan krafðist margra fórnarlamba.

Sannleikurinn er sá að Ísraelsher á ekkert svar við ofbeldislausri andspyrnu. Í slíkri baráttu hafa Palestínumenn öll spilin á hendi sér. Almenningsálit heimsins fordæmir Ísrael og lofar Palestínumenn. Þess vegna hefur herinn skothríð til þess að til að fá Palestínumenn til að beita ofbeldisverkum. Þau kann herinn að eiga við.

Ofbeldislaus andspyrna er mjög erfið aðferð. Hún krefst gríðarlegs viljastyrks, strangs sjálfsaga og siðferðislegra yfirburða. Slíka eiginleika má finna í menningu Indverja, sem ól af sér Gandhi, og innan samfélags bandarískra blökkumanna, sem Martin Luther King tilheyrði. Það er enga slíka hefð að finna meðal múslima.

Þess vegna vekur þeim mun meiri furðu að mótmælendurnir á Gaza finni nú þetta afl innra með sér. Atburðirnir 14. maí, Mánudaginn myrka, kom umheiminum á óvart. Fjöldinn allur af óvopnuðum manneskjum, körlum, konum og börnum, buðu ísraelsku skyttunum byrgin. Fólkið greip ekki til vopna. Það „réðist ekki á girðinguna“, en það er lygi sem hin öfluga áróðursmaskína Ísraels hefur borið út. Það stóð berskjaldað frammi fyrir skyttunum og var drepið.

Ísraelsher er sannfærður um að íbúar Gaza muni ekki standast prófraunina og að þeir snúi aftur til þess að beita gagnslausu ofbeldi. Á þriðjudaginn var [29. maí, innskot þýðanda] virtist sem að það væri rétt metið. Ein af hreyfingunum á Gaza framdi „hefndaraðgerð“, og varpaði meira en hundrað flugskeytum á Ísrael án þess að valda neinum raunverulegum skaða. Þetta var gagnslaus aðgerð. Ofbeldisfullar aðgerðir hafa ekki nokkurn möguleika á að valda Ísrael skaða. Þær fóðra einungis áróður Ísraels.

 

Þegar fólk hugsar um ofbeldislausa andspyrnu, þá ætti það að minnast Amritsar. Það er heitið á indverskum bæ þar sem hermenn undir stjórn Breta hófu blóðuga skothríð á friðsama mótmælendur í apríl árið 1919, sem stóð sleitulaust í 10 í mínútur og varð að minnsta kosti 379 manns að bana og særði um 1200. Nafn yfirmannsins, Reginalds Dyer ofursta, rataði á spjöld sögunnar, honum til ævarandi skammar. Breskur almenningur var sleginn. Margir sagnfræðingar telja þetta marka upphaf endaloka breskra yfirráða á Indlandi. „Mánudagurinn myrki“ við landamæri Gaza minnir mann á þennan atburð.  

***

Hvernig endar þetta?

Hamas hefur boðið Hudna í 40 ár. Hudna er heilagt vopnahlé sem enginn múslimi má rjúfa.

Ég hef áður minnst á krossfarana, sem dvöldu í Palestínu í næstum 200 ár (lengur en við höfum verið til þessa). Þeir undirgengust nokkrum sinnum slíkt samkomulag við fjandsamlegu múslimaríkin umhverfis þá. Arabarnir stóðu staðfastlega við sitt.

Spurningin er þessi: getur ríkisstjórn Ísraels samþykkt Hudna? Eftir að hafa espað upp fjölda fylgismanna sinna og fyllt þá banvænu hatri gagnvart fólkinu á Gaza almennt og sér í lagi Hamas, myndi hún þá þora að fallast á það?

Þegar verið er að kæfa íbúa Gazastrandarinnar, sem skortir lyf, sem skortir nægan mat, sem skortir hreint vatn og skortir rafmagn, mun þá ríkisstjórn okkar ekki falla í þá gildru blekkingarinnar að  halda að Hamas muni nú falla?

Það mun að sjálfsögðu ekki gerast. Eins og við sungum í æsku okkar: „Engin þjóð yfirgefur skotgrafir síns eigin lífs!“  

Eins og gyðingar sönnuðu sjálfir öldum saman, þá eru engin takmörk fyrir því hvað þjóð getur staðið af sér þegar sjálf tilvera hennar er í húfi.

Það er það sem sagan kennir okkur.

***

Hjarta mitt slær með fólkinu á Gaza.

 

Mig langar að biðja þau fyrirgefningar, í nafni mínu og í nafni Ísraels, landsins míns.

Ég þrái þann dag þegar allt mun breytast, daginn sem vitrari ríkisstjórn mun fallast á Hudna, opna landamærin og leyfa fólkinu á Gaza að snúa aftur til umheimsins.

Í dag elska ég einnig Gaza, með þeirri elsku sem Biblían segir að sé sterk eins og dauðinn.

Höfundur er 94 ára formaður ísraelsku friðarsamtakanna Gush Shalom og fyrrum hermaður, ritstjóri og þingmaður. Einar Steinn Valgarðsson þýddi með góðfúslegu leyfi höfundar.  




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×