Fótbolti

Thomas Lemar samþykkir að ganga til liðs við Atletico Madrid

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Þremenningarnir ásamt forráðamönnum Atletico Madrid
Þremenningarnir ásamt forráðamönnum Atletico Madrid Heimasíða Atletico Madrid
Antoine Griezmann hefur framlengt samning sinn við spænska úrvalsdeildarliðið Atletico Madrid um eitt ár eða til ársins 2023. Hann undirritaði samninginn í gær þrátt fyrir að vera á fullri ferð með franska landsliðinu á HM í Rússlandi.

Forráðamenn Atletico Madrid héldu til Rússlands og heimsóttu æfingabúðir franska landsliðsins þar sem nýr samningur við Griezmann var undirritaður. Þeir létu ekki staðar numið þar heldur var einnig undirritaður nýr samningur við vinstri bakvörðinn Lucas Hernandez til ársins 2024.

Þá tókst þeim einnig að bæta við sig nýjum leikmanni þar sem þeir komust að samkomulagi við hinn eftirsótta Thomas Lemar um að ganga í raðir félagsins frá Monaco.

Ekki er þó hægt að staðfesta félagaskiptin fyrr en eftir að þátttöku Frakka á HM lýkur og á Lemar því eftir að gangast undir læknisskoðun hjá Atletico Madrid auk þess sem félögin eiga eftir að ganga endanlega frá samkomulagi um kaupverð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×