Fótbolti

Hörður hlær að argentínska þjálfaranum sem „hljóp á vegg“

Tómas Þór Þórðarson í Kabardinka skrifar
Hörður Björgvin Magnússon gat ekki annað en skemmt sér yfir ummælum argentínska þjálfarans.
Hörður Björgvin Magnússon gat ekki annað en skemmt sér yfir ummælum argentínska þjálfarans. vísir/vilhelm
Jorge Sampaoli, þjálfari argentínska landsliðsins í fótbolta, féll með stæl á prófinu gegn strákunum okkar í fyrsta leik liðanna á HM 2018 í fótbolta en liðin skildu jöfn, 1-1, í Moskvu.

Sampaoli þykir einn flottasti taktíker þjálfaraheimsins í dag en hann kom íslenska þjálfarateyminu nákvæmlega ekkert á óvart í leiknum eins og Freyr Alexandersson, yfirnjósnari íslenska liðsins, útskýrði í fyrradag.

Eitt af því sem Argentínumaðurinn ætlaði að gera í leiknum og lagði upp með var að að ráðast á Hörð Björgvin Magnússon í vinstri bakverðinum sem að hann taldi þá vera einn veikasta hlekk liðsins.

„Allir leikir eru mismunandi. Færslurnar voru of hægar hjá okkur og við gátum ekki sært þá. Þeir voru of margir fyrir okkur. Við vildum ráðast á vinstri bakvörðinn þeirra (Hörð Björgvin) og særa þá þar. Það gekk ekki,“ sagði Sampaoli á blaðamannafundi eftir leik.

Vítaspyrna var vissulega dæmd á Hörð Björgvin í leiknum en flestir sparkspekingar heimsins eru búnir að útskýra að það var rangur dómur. Framarinn uppaldi spilaði stórvel og sendi Sampaoli pillu aðspurður út í ummæli hans í dag.

„Ég hreinlega veit ekki hvað skal segja. Hann hafði rangt fyrir sér. Hann bara hljóp á vegg og verður að taka skellinn,“ sagði Hörður Björgvin Magnússon á æfingu landsliðsins í dag og hló.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á FacebookTwitter og Instagram.


Tengdar fréttir

Föstu leikatriðin vopn í búrinu

Við vissum nákvæmlega hvað við vildum gera en náðum ekki að fría okkur, segir Kári Árnason um föstu leikatriðin gegn Argentínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×