Innlent

Lengja viðmið um afgreiðslutíma umsókna um dvalarleyfi og ríkisborgararétt

Atli Ísleifsson skrifar
Fjöldi umsókna um fyrstu dvalarleyfi og endurnýjanir jókst um fjórðung árið 2016 og önnur 25 prósent á síðasta ári.
Fjöldi umsókna um fyrstu dvalarleyfi og endurnýjanir jókst um fjórðung árið 2016 og önnur 25 prósent á síðasta ári. Fréttablaðið/Stefán
Útlendingastofnun hefur ákveðið að lengja viðmið um afgreiðslutíma fyrir umsókn um fyrsta dvalarleyfi úr níutíu dögum í 180 daga. Þetta er gert vegna mikillar fjölgunar umsókna.

Á heimasíðu Útlendingastofnunar kemur fram að einnig hafi verið ákveðið að lengja viðmið um afgreiðslutíma umsóknir um íslenskan ríkisborgararétt úr sex til átta mánuðum í tólf mánuði. Umsóknir verði þó afgreiddar jafn hratt og stofnuninni er unnt. Fjöldi umsókna um fyrstu dvalarleyfi og endurnýjanir jókst um fjórðung árið 2016 og önnur 25 prósent á síðasta ári, að því er fram kemur á síðu stofnunarinnar.

„Í tölum þýðir þetta fjölgun úr 3.735 í 5.850 umsóknir milli áranna 2015 og 2017. Á sama tíma hefur stofnunin ekki getað fjölgað starfsfólki á leyfasviði eins og nauðsynlegt væri til að viðhalda sama afgreiðsluhraða og áður og fyrir vikið hefur biðtími umsækjenda lengst. Þannig voru 85% allra umsókna árið 2017 afgreiddar innan 90 daga en það sem af er árinu 2018 hefur hlutfallið farið niður í 70%. Umsóknum sem bíða afgreiðslu hefur samhliða fjölgað mjög og eru nú rúmlega 1.700.

Í ljósi þessa hefur viðmið um afgreiðslutíma fyrir umsókn um fyrsta dvalarleyfi verið lengt úr 90 dögum í 180 daga. Með öðrum orðum verður umsækjandi um fyrsta dvalarleyfi að gera ráð fyrir að liðið geti allt að 180 dagar frá því að greitt hefur verið fyrir umsókn þar til hún er tekin til vinnslu. Áfram verður miðað við að umsókn um endurnýjun dvalarleyfis verði tekin til vinnslu innan 90 daga frá því að greitt er fyrir umsókn. Þá verða árstíðabundin leyfi líkt og dvalarleyfi vegna náms sett í forgang,“ segir í fréttinni á vef Útlendingastofnunar.

Ennfremur segir að umsóknum um íslenskan ríkisborgararétt hafi sömuleiðis fjölgað á síðustu árum og voru um 1.100 á síðasta ári. Umsóknir um ríkisborgararétt sem lagðar hafa verið fyrir Alþingi hafa hækkað umtalsvert á síðustu árum, úr 12 prósent árið 2015 í 28 prósent á síðasta ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×