Umfjöllun: Danmörk - Ísland 24-17 | Ágæt frammistaða en tap gegn Dönum

Benedikt Grétarsson skrifar
vísir/eyjólfur
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta tapaði 24-17 gegn Dönum í undankeppni Evrópumótsins sem haldið verður í Frakklandi í desember. Eins og lokatölurnar bera með sér voru Danir betri aðilinn en íslenska liðið átti ágæta spretti og tapið kannski fullstórt miðað við frammistöðuna.

Ísland lýkur því keppni í undanriðlinum með aðeins eitt stig að loknum sex leikjum og það verður að teljast vonbrigði.

Það var ljóst að erfitt verkefni beið íslenska liðsins í dag en Danir eiga eitt besta landslið heims. Leikurinn fór líka illa af stað og Danir skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins.

Heimakonur voru sterkari á öllum sviðum handboltans og rétt eins og í leiknum gegn Tékkum í vikunni, lenti Ísland 10-3 undir.

Það var lítið að ganga upp á þessum kafla. Vörnin réði ekki við innleysingar dönsku leikmannana og í sókninni var mikið ráðaleysi.

Í stöðunni 12-5 fyrir Dani, náði íslenska vörnin hins vegar góðum kafla og hélt geysisterku sóknarliði Dana markalausu síðustu 8 mínútur hálfleiksins. Því miður náði sóknarleikurinn ekki að fylgja næilega vel á eftir en Ísland skoraði þó eitt mark á þessum kafla og staðan var því 12-6 í hálfleik.

Fyrstu 15 mínútur seinni hálfleiks voru prýðilega leiknar hjá íslenska liðinu. Varnarleikurinn var mjög góður og Danir vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Munurinn fór niður í tvö mörk og Ísland fékk nokkur fín tækifæri til að minnka muninn í eitt mark.

Það gekk hins vegar ekki eftir og Danir vöknuðu aftur af værum blundi. Heimakonur unnu lokakaflann 7-2 og lönduðu sanngjörnun sjö marka sigri.

Alls komust 10 leikmenn á blað í leiknum en markahæstar voru Arna Sif Pálsdóttir og Steinunn Hansdóttur með 3 mörk hvor. Hafdís Lilja Renötudóttir stóða allan tímann í markinu og varði 8 skot.

Af hverju unnu Danir leikinn?

Danir voru heilt yfir betri aðilinn og áttu sigurinn skilið. Vörn Dana í upphafi leiksins skilaði þeim góði forskoti sem þær héldu til leiksloka.

Hverjar stóðu upp úr?

Allt liðið á hrós skilið fyrir varnarvinnuna í þessum leik. Auðvitað komu kaflar þar sem mörkin komu full auðveldlega hjá Dönum en að mestu leyti var vörnin jákvæðasti hluti leiksins. Lovísa lifnaði við eftir að vera sett vinstra megin en hún náði sér ekki á strik hægra megin á vellinum.

Hvað gekk illa?

Uppstilltur sóknarleikur var í vandræðum lengi en batnaði mikið þegar leið á leikinn. Það komu líka upp augnablik þar sem mark Dana stóð autt en enginn leikmaður Íslands áttaði sig á möguleikanum að skora í tómt markið.

Hvað gerist næst?

Sumarfrí og sæla. Muna bara að grafa afturendann vel ofan í sandinn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira